Innlent

Gjald­þrot WOW air getur haft mjög mikil á­hrif á rekstur borgarinnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sjóðstaða borgarsjóðs er sterk en fer hratt lækkandi í sviðsmyndinni en helst þó jákvæð í u.þ.b. eitt og hálft ár eftir að fall WOW air skellur á, að því er segir í minnisblaði fjármálaskrifstofu borgarinnar.
Sjóðstaða borgarsjóðs er sterk en fer hratt lækkandi í sviðsmyndinni en helst þó jákvæð í u.þ.b. eitt og hálft ár eftir að fall WOW air skellur á, að því er segir í minnisblaði fjármálaskrifstofu borgarinnar. vísir/vilhelm
Efnahagsleg áhrif af gjaldþroti WOW air geta hafa mjög mikil áhrif á rekstur Reykjavíkurborgar gangi sú sviðsmynd eftir sem sett er fram í minnisblaði áhættumatsdeildar fjármálaskrifstofu borgarinnar.

Minnisblaðið var lagt fyrir á fundi borgarráðs í gær. Það er unnið út frá greiningu starfshóps stjórnvalda um möguleg áhrif af falli WOW air sem unnin var í haust en einnig er byggt á sambærilegum greiningum Reykjavík Economics og Arion banka auk minnisblaðs Moody‘s um sama efni.

Í sviðsmynd fjármálaskrifstofunnar segir að gjaldþrot WOW air geri það að verkum að horfur í rekstrarumhverfi og efnahagsmálum Reykjavíkurborgar hafi versnað. Ekki sé gert ráð fyrir því í greiningunni að nýir aðilar fylli fljótt upp í sætaframboð WOW air heldur að það komi þó nokkuð högg á hagkerfið vegna gjaldþrots flugfélagsins.

Gert er ráð fyrir því í sviðsmyndinni að talsverður samdráttur verði strax á þessu ári og verðbólga aukist miðað við áður gefnar forsendur fjármálaáætlunar borgarinnar. Þá geta áhrif á Orkuveitu Reykjavíkur orðið töluverð í gegnum verðbólgu og gengisveikingu þar sem OR er með mikið af lánum sem bera eigendaábyrgð sem eru bæði í verðtryggðum krónum og erlendri mynt.

Niðurstaða sviðsmyndar fjármálaskrifstofunnar er sú að rekstrarniðurstaða borgarinnar fyrir árið verði töluvert lægri en gert var ráð fyrir í fjármálaáætlun, eða sem nemur 3,3 milljörðum króna. Kemur þetta til vegna minnkandi vinnumagns sem hefur áhrif til lækkunar á útsvarstekjum.

Sjóðstaða borgarinnar mun þó haldast jákvæð fyrir þetta ár en er þó töluvert undir því sem gert var ráð fyrir, eða sem nemur um 3,9 milljörðum króna.

Minnisblaðinu lýkur á þessum orðum þar sem niðurstaða þess er dregin saman:

„Af sviðsmyndinni sem hér er sett fram sést að metin efnahagsleg áhrif af falli WOW air geta haft mjög mikil áhrif á rekstur Reykjavíkurborgargangi sú myndeftir. Sjóðstaða borgarsjóðs er sterk en fer hratt lækkandi í sviðsmyndinni en helst þó jákvæð í u.þ.b. eitt og hálft ár eftir að fall WOW air skellur á.

Þessi lækkandi sjóðstaða gæti gefið tilefni til aðhaldsaðgerða borgarinnar auk endurskoðunar á fjárfestingaráætlun. Þess ber þó að geta að niðurstöður þeirra aðila sem lagt er til grundvallar hér í þessari sviðsmynd eru háðar mikilli óvissu sem og mat fjármálaskrifstofu á afleiddum áhrifum af þeim á rekstur Reykjavíkurborgar.

Óvíst er hvort og hversu hratt aðrir aðilar muni koma inn á flugmarkað og fylla í skarð WOW air sem og hversu mikið aðrar atvinnugreinar geta tekið við því vinnuafli sem tapast í ferðaþjónustu. Að auki eru almennt taldar einhverjar líkur á því að Seðlabankinn grípi í taumana og lækki vexti og örvi þar með hagvöxt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×