Viðskipti innlent

Klórar sér í höfðinu yfir markaðsvirði HB Granda

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda.
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
„Greinandi Capacent klórar sér alla jafna mikið í kollinum yfir verði HB Granda á markaði. Capacent á mjög erfitt með að sjá hvernig hægt er að fá út markaðsvirði GB Granda með hefðbundnu sjóðstreymisverðmati,“ segir í greiningu.

Capacent verðmetur HB Granda á 20,3 krónur á hlut en markaðsvirði útgerðarinnar er 29,95 krónur á hlut.

Önnur leið til að meta markaðsvirði útgerðar er að reikna upplausnarvirði hennar en verðmætustu eignirnar eru aflaheimildir. Capacent metur virði aflaheimilda HB Granda á 54-60 milljarða króna. Til samanburðar er markaðsvirði HB Granda 54 milljarðar króna og sjóðstreymismat Capacent hljóðar upp á 37 milljarða króna.

„Vissulega henta félög eins og HB Grandi vel í hlutabréfasafn en þegar harðnar í ári gengur sjávarútvegurinn gjarnan vel líkt og eftir bankahrunið. Lágt gengi krónu og slaki á vinnumarkaði í kjölfar efnahagssamdráttar eykur hagnað félags líkt og HB Granda. Hins vegar er spurning hversu hátt verð fjárfestar eru til í að greiða fyrir þennan eiginleika,“ segir í Capacent.

Rekstur sjávarútvegsfyrirtækja hefur gengið erfiðlega á undanförnum árum, framlegð HB Granda hefur til að mynda dregist saman um 20 prósent á þremur árum, og því vekur það athygli Capacent að verðmæti aflaheimilda hafi hækkað síðastliðið ár. Samkvæmt einfaldri greiningu Capacent má ekki rekja hækkunina til útlánaaukningar þótt ekki sé hægt að útiloka að það hafi haft einhver áhrif.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×