Lífið

„Ef við getum gert grín að umræðuefninu, þá er það betra“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Heiðar þekkir kvikmyndabransann inn og út.
Heiðar þekkir kvikmyndabransann inn og út. vísir/vilhelm
Heiðar Sumarliðason, leikskáld og leikstjóri, fór af stað með nýjan útvarpsþátt á X-977 á dögunum og ber þátturinn nafnið Stjörnubíó og fjallar eðli málsins samkvæmt um kvikmyndir og því tengdu.

Verk eftir Heiðar hafa meðal annars verið sýnd í Tjarnarbíói, Borgar-, Þjóð- og Útvarpsleikhúsinu og hefur hann skrifað verk eins og (90)210 Garðabær, Rautt brennur fyrir, Heteróhetjur, Það sem við gerum í einrúmi og Svín.

„Þetta er það sem ég kalla rabbþátt og mun ég þar rabba við gesti um það sem er í gangi í kvikmynda- og sjónvarpsheiminum,“ segir Heiðar en fjölmargir klippur eru nú þegar komnar inn á Vísi úr þættinum. Þátturinn er á dagskrá á X-inu í hádeginu á sunnudögum.

„Þetta er ekkert líkt þeim kvikmyndaþáttum sem hafa verið í útvarpi á Íslandi. Við erum ekki að kynna efni, heldur erum við að reyna að finna einhvern sniðugan flöt og ef við getum gert grín að umræðuefninu, þá er það betra. Við reynum svo í bland að hafa hann fróðlegan og gáfulegan, en lykilatriðið er að hann sé skemmtilegur. Þetta er svona eins og fyrir hinar leiknu listir það sem Dr. Football er fyrir fótboltann,“ segir Heiðar og bætir við að oftast sé þetta spjall tveggja einstaklinga um það sem er að gerast í kvikmynda- og sjónvarpsbransanum, með nýjar kvikmyndir eða sjónvarpsþætti sem leiðarstef.

„Svo eru þættir þar sem ég fæ einhvern í viðtal hálfan þáttinn. Ég hef fengið Jóhannes Hauk, Ísold Uggadóttur og Hallgrím Ólafsson.“

Hér að neðan má til að mynda hlusta á umræður um myndirnar Shazham, Dúmbó og Star Wars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×