Innlent

Vorið væntanlegt síðar í vikunni

Birgir Olgeirsson skrifar
Hæð við Noregsstrendur ýtir lægðum frá Íslandi til Spánar.
Hæð við Noregsstrendur ýtir lægðum frá Íslandi til Spánar. Vísir/Vilhelm
Vorlegt veður er í vændum seinni helming vikunnar ef spár ganga eftir. Áður en það gerist mun norðan hvassviðri ganga yfir landið í kvöld og nótt. Vindstrengir geta því náð stormstyrk við Vatnajökul í nótt og fram yfir hádegi á morgun.

Síðdegis mun lægja, stytta upp og herða á frosti.

Á miðvikudag gengur í stífa sunnanátt með rigningu eða slyddu á Suður- og Vesturlandi og hlýnar í veðri.

Síðan er spáð rólegu veðri frá fimmtudegi til sunnudags þar sem hitinn mun mjakast upp á við.

Óli Þór Árnason veðurfræðingur segir að frá laugardegi til þriðjudags séu ekki að sjá neinar frosttölur á öllu landinu og verður hiti á bilinu 4 til 7 stig.

Það mun létta heldur á snjó og mun gróður láta á sér bæra.

Þetta er því fremur vorleg spá en Óli segir það stafa af hæð við Noregsstrendur sem ýtir lægðum suður eftir til Spánar. Þeir sem verða því á Spáni í næstu viku geta ekki búist við að koma sólbrúnir til baka að sögn Óla. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×