Körfubolti

Bara tvær endurkomur á fyrstu 29 árunum og svo tvær sama kvöldið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurður Þorsteinsson, miðherji ÍR, átti frábæra seríu gegn Njarðvík.
Sigurður Þorsteinsson, miðherji ÍR, átti frábæra seríu gegn Njarðvík. vísir/bára
Það er 1. apríl og kvöldið í undanúrslitum Domino's deildar karla var lyginni líkast.

Þór Þ. og ÍR tryggðu sér sæti í undanúrslitum með sigrum á Tindastóli og Njarðvík í kvöld. Þórsarar unnu magnaðan endurkomusigur á Króknum, 93-94, en ÍR-ingar sóttu sigur í Ljónagryfjuna, 74-86.

Þór og ÍR lentu bæði 2-0 undir í rimmum sínum en komu til baka, unnu þrjá síðustu leikina og komust áfram. Ótrúleg frammistaða hjá liðunum sem enduðu í 6. og 7. sæti í deildarkeppninni.

Frá 1990 (fyrsta tímabilið þar sem lið þurftu að vinna þrjá leiki í úrslitakeppni) til 2018 gerðist það aðeins tvisvar að lið komu til baka og fóru áfram eftir að hafa lent 2-0 undir. Það er hins vegar búið að gerast tvisvar í úrslitakeppninni 2019 og hún er nýhafin.

Árið 2008 komst ÍR í 2-0 gegn Keflavík í undanúrslitum en Keflvíkingar sneru dæminu sér í vil og tryggðu sér sæti í úrslitum þar sem þeir unnu Snæfell, 3-0.

Árið 2015 komst Keflavík í 2-0 forystu gegn Haukum í 8-liða úrslitum. Hafnfirðingar gáfust ekki upp, unnu þrjá leiki í röð og tryggðu sér sæti í undanúrslitum. Þar töpuðu Haukar fyrir Tindastóli, 3-1.

Í undanúrslitunum sem hefjast síðar í vikunni mætast Stjarnan og ÍR annars vegar og KR og Þór Þ. hins vegar.

Þetta er þriðja árið í röð sem Stjarnan og ÍR mætast í úrslitakeppninni. Í 8-liða úrslitunum 2017 unnu Stjörnumenn ÍR-inga 3-0 en Breiðhyltingar hefndu með 3-1 sigri í 8-liða úrslitunum í fyrra. Liðin mættust einnig í undanúrslitum Geysisbikarsins í febrúar þar sem Stjarnan hafði betur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×