Viðskipti innlent

Guðbjörg bætir enn við eignarhlut sinn í TM

Hörður Ægisson og Kristinn Ingi Jónsson skrifa
Guðbjörg Matthíasdóttir útgerðarkona.
Guðbjörg Matthíasdóttir útgerðarkona. Fréttablaðið/Anton Brink
ÍV fjárfestingafélag, sem er í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur og fjölskyldu, aðaleigenda Ísfélagsins í Vestmannaeyjum, gekk nýverið frá kaupum á níu milljónum hluta, um 1,33 prósenta eignarhlut, í TM. Með kaupunum komst félagið í hóp tuttugu stærstu hluthafa tryggingafélagsins.

Fyrir átti annað félag í eigu fjölskyldunnar, Kristinn, um 1,14 prósenta hlut í TM en eins og greint hefur verið frá í Markaðinum hefur fjölskyldan aukið umtalsvert við eignarhlut sinn í félaginu að undanförnu.

Þá eiga félög Guðbjargar, eins og áður hefur komið fram, hlut í tryggingafélaginu í gegnum framvirka samninga hjá Íslandsbanka. Ekki fást staðfestar upplýsingar um hversu stóran hlut félögin fara með í TM í gegnum slíka samninga en samanlagður hlutur Guðbjargar í tryggingafélaginu er nú kominn vel yfir fimm prósent, að sögn þeirra sem þekkja vel til.

Eitt félaga Guðbjargar, Kristinn, hóf að fjárfesta í tryggingafélaginu á árinu 2016 og nam eignarhlutur félagsins 0,7 prósentum í lok árs 2017.

Guðbjörg þekkir vel til TM en hún var aðaleigandi tryggingafélagsins á árunum fyrir fall fjármálakerfisins og samhliða því sat hún í stjórn félagsins. Hún seldi hins vegar eignarhlut sinn í TM að stærstum hluta haustið 2007 til Glitnis.

Hlutabréfaverð TM hefur hækkað um liðlega 21 prósent það sem af er árinu og miðað við núverandi gengi bréfa félagsins, sem er um 31 króna á hlut, nemur markaðsvirði þess um 21 milljarði króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×