Viðskipti innlent

Segja Skúla ætla að endurreisa WOW air undir nýju nafni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Skúli Mogensen er ekki af baki dottinn.
Skúli Mogensen er ekki af baki dottinn.
Til stendur að blása lífi í rústir WOW Air. Ætlunin er að hefja rekstur nýs flugfélags og eru Skúli Mogensen og aðrir lykilstarfsmenn hins gjaldþrota WOW sagðir leita fjármögnunar þessa dagana til að gera endurreisnina að veruleika. Stefnan sé sett á að safna 40 milljónum dala, næstum 4,8 milljörðum króna.

Þetta er meðal þess sem fram á að koma í fjárfestingakynningu sem Fréttablaðið segir að Skúli hafi látið útbúa um hið nýja lággjaldaflugfélag. Skúli vildi hvorki staðfesta né vísa þessum fregnum á bug þegar fréttastofan hafði samband við hann nú í hádeginu.

Í kynningunni, sem dagsett er 3. apríl, á meðal annars að koma fram að nýja flugfélagið hafi í hyggju, í upphafi, að reka fimm Airbus-farþegaþotur, fjórar af gerðinni A321neo og eina af gerðinni A320neo.

Ætlunin sé að reka flugfélag sem fylgir hinni hörðu lággjaldastefnu sem WOW air iðkaði á fyrstu árum flugfélagsins.

Hafi lært af falli WOW

Kynningin gerir að sama skapi ráð fyrir því að Skúli og aðrir lykilstarfsmenn WOW munu eiga 51 prósents hlut í nýja félaginu. Þeir sem munu leggja til fyrrnefnda 40 milljónir dala fari því með 49 prósent hlut.

Nýja flugfélagið ætli sér að öðlast flugrekstrarleyfi á þeim forsendum að „að það sinni fyrstu vikurnar leiguverkefnum fyrir stórt evrópskt flugfélag, því takist að kaupa helstu eignir þrotabús WOW air, þar á meðal vörumerkið, það nái samkomulagi við leigusala um rekstur á fimm flugvélum og enn fremur að félaginu takist að sækja sér nægt fjármagn til þess að hefja starfsemi,“ eins og segir í frétt Fréttablaðisins.

Þar segir ennfremur að í kynningunni standi að Skúli og hans fólk hafi „lært sína lexíu“ af falli WOW og muni því halda sig við hreinræktaða lággjaldastefnu - sambærilega þeirri sem WOW studdist við á fyrstu árunum.

Uppfært klukkan 12:39. Í fyrri útgáfu var haft eftir Fréttablaðinu að nýja flugfélagið ætti að heita NewCo. Um var að ræða skammstöfun fyrir New Company, nýtt fyrirtæki. 


Tengdar fréttir

Helmingur útgáfunnar var nýtt fjármagn

Um helmingur af andvirði skuldabréfaútgáfu WOW air fékkst með því að ýmsir kröfuhafar breyttu hluta krafna sinna í skuldabréf. Fulltrúi skuldabréfaeigenda óskar upplýsinga. Félagið hefði þurft meira en viku til viðbótar til að ljúka viðræðum við fjárfesta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×