Körfubolti

Ægir: Þá getum við alveg gleymt því að vinna þessa seríu

Árni Jóhannsson skrifar
Ægir var ómyrkur í máli í leikslok í kvöld.
Ægir var ómyrkur í máli í leikslok í kvöld. vísir/bára
Stjarnan tapaði í kvöld gegn ÍR í undanúrslitum Dominos-deildar karla og er staðan í einvíginu orðin jöfn 1-1. Ægir Þór Steinarsson, fyrirliði Stjörnunnar, var ómyrkur í máli um það hvernig Stjörnumenn misstu leikinn eiginlega úr höndum sér. 

„Við bara misstum haus. Það er bara það, við létum utanaðkomandi hluti fara í taugarnar á okkur. Það leiddi okkur út úr stöðunni, bæði í varnarleik og sóknarleik og ef við ætlum að fara að einbeita okkur að einhverju kjaftæði sem tengist ekki körfubolta þá getum við alveg gleymt því að vinna þessa seríu,“ sagði Ægir Þór.

„Við verðum að halda haus og vita hvað við erum að fara að gera bæði í vörn og sókn, það er það sem skiptir máli.“

Stjarnan hafði mest náð 10 stiga forskoti í seinni hálfleik þegar um tvær mínútur lifðu af þriðja leikhluta en með miklum ákafa í vörn og skynsömum leik náði ÍR að naga forystuna niður, komast yfir og klára leikinn þegar á reyndi í fjórða leikhluta.

Ægir var, eins og áður segir, ósáttur við hugarfar sinna manna og talaði um að því þyrfti að skipta út fyrir næsta leik.

„Fyrir næsta leik þurfum við að skipta um hugarfar. Við þurfum að koma skynsamir inn í næsta leik. Við þurfum bara að halda haus og klára þessa leiki.“

Ægir var að lokum spurður hvort hans menn hafi verið komnir eitthvað lengra í huganum eftir stór sigur í fyrsta leik.

„Það var ekkert svoleiðis í gangi. Það var ekki það sem við vorum að pæla, enda sögðum við eftir seinasta leik að við ætluðum að koma í þennan leik af festu. Við verðum bara að hrósa ÍR, þeir komu betur stemmdir í þennan leik.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×