Körfubolti

Ingi Þór: Vantaði að horfa á þá fyrir neðan mitti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
KR tapaði sínum fyrsta leik í úrslitakeppninni í kvöld.
KR tapaði sínum fyrsta leik í úrslitakeppninni í kvöld. VÍSIR/EYÞÓR
Ingi Þór Steinþórsson og strákarnir hans í KR þurftu að játa sig sigraða í Þorlákshöfn í dag.

„Við fengum alltof mörg stig á okkur eftir tapaða bolta. Svo var eins og þetta væri skrifað í skýin. Þetta féll með þeim. Þeir börðust fyrir þessu. Við vorum ekki nógu sterkir að stíga út,“ sagði Ingi Þór eftir leik.

„Mér fannst uppstilltur varnarleikur ganga betur eftir því leið á leikinn en það vantaði meiri baráttu. Þeir voru bara betri en við í dag.“

Ingi Þór segir að Þór sé verðugur andstæðingur og gott betur.

„Þór er með hörkulið. Mér finnst umræðan um Þórsara hafa verið hallærisleg; að við séum að fá frímiða í úrslitin. Þetta eru stríðsmenn sem eru góðir í körfubolta,“ sagði Ingi Þór.

Honum fannst Þórsarar komast upp með full mikið undir körfunni.

„Annan leikinn í röð fannst Julian [Boyd] illa farið með sig undir körfunni. Það sama á við um Kristófer. Það er auðvelt að spila vörn þegar þú færð að spila hart. Ég er ekki að tala um þegar slegið er í hendur heldur hné í læri. Það vantaði að horfa á þá fyrir neðan mitti,“ sagði Ingi Þór.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×