Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók í kvöld þrjá einstaklinga vegna gruns um innbrot í íbúðarhús í Grafarvogi. Þeir gista nú fangageymslu og málið er til rannsóknar, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.
Þá handók lögregla mann í Skeifunni á níunda tímanum eftir að tilkynnt hafði verið um mann með barefli. Maðurinn gistir fangageymslu þar til unnt verður að ræða við hann.
Á ellefta tímanum var manni ógnað með hnífi í miðbænum. Í dagbók lögreglu segir að gerandi hafi verið farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að garði og því hefur enginn verið handtekinn í tengslum við málið.
Skömmu fyrir klukkan 18 var lögreglu svo tilkynnt um innbrot í bifreið í austurbæ Reykjavíkur. Talsverðum fjölda muna var stolið úr bifreiðinni en lögregla rannsakar málið.
Á fimmta tímanum var jafnframt tilkynnt um þjófnað á vörum í verslun í austurbænum. Einn var handtekinn vegna málsins. Þá var annar einstaklingur handtekinn á ellefta tímanum en hann gat ekki greitt fyrir leigubílinn sem hann hafði tekið.
Þrír handteknir vegna innbrots í Grafarvogi
Kristín Ólafsdóttir skrifar
