Körfubolti

Ætlar ekki að kæra þjálfara Blika en stendur með Unni Töru

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Antonio d'Albero er ekki á jólakortalistanum hjá KR.
Antonio d'Albero er ekki á jólakortalistanum hjá KR. vísir/bára
Antonio d'Albero, þjálfari Breiðabliks í Domino´s-deild kvenna í körfubolta, er ekki vinsælasti maðurinn í vesturbænum þessa stundina en Unnur Tara Jónsdóttir, leikmaður KR, hyggst kvarta undan framkomu hans í sinn garð til KKÍ.

Mbl.is greinir frá en Unnur sagði fyrst frá því á Facebook að að þjálfari Breiðabliks hafi verið með svívirðingar í sinn garð frá því að hún kom inn á í leik KR og Breiðabliks í gær og þær hafi haldið áfram í dágóða stund.

„Ég hef aldrei lent í þessu áður og skrifaði því aðeins um þetta á Facebook í gærkvöldi vegna þess að ég vissi ekki hvernig ég ætti að koma þessu á framfæri. Svívirðingar þjálfarans byrjuðu um hálfri mínútu eftir að ég kom inn á og héldu áfram í dágóða stund. Hann lét ýmislegt flakka sem ég nefndi ekki á Facebook,“ segir Unnur Tara við mbl.is.

Benedikt Guðmundsson, þjálfari KR, tekur upp málið á Facebook-síðu sinni og segist hafa upplifað svipaða framkomu í sinn garð frá d'Albero.

„Sjálfur fékk ég það óþvegið frá sama aðila í sama leik. Það tók mig þó smá tíma að átta mig á að viðkomandi væri að kalla yfir til mín og bauna á mig. Á 27 ára starfsferli í þessari blessaðri þjálfun hef ég aldrei upplifað neitt í líkingu við þetta. Óvirðingin, hrokinn, dónaskapurinn og pillurnar sem mér voru sendar er eitthvað sem þekkist ekki í þessum bransa,“ segir Benedikt.

Hann bætir við að hann sé kominn með þykkan skráp eftir mörg ár í bransanum og ætli því ekki að kæra en hann styður Unni Töru 100 prósent í hennar máli því svona eigi ekki að líðast.

„Þetta er alls ekki í fyrsta skipti sem þessi aðili hagar sér svona og hefur verið kvartað undan honum áður. Ég vona samt að stelpurnar í deildinni þurfi ekki að hlusta á svona munnsöfnuð og blammeringar oftar,“ segir Benedikt Guðmundsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×