Fótbolti

Mótherjar Íslands í undankeppninni reka þjálfarann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Panucci gerði engar rósir með albanska landsliðið.
Panucci gerði engar rósir með albanska landsliðið. vísir/getty
Albanía, sem er með Íslandi í riðli í undankeppni EM 2020, hefur rekið Ítalann Christian Panucci úr starfi landsliðsþjálfara.

Albanía tapaði 0-2 fyrir Tyrklandi í fyrsta leik sínum í undankeppninni í gær og það var kornið sem fyllti mælinn hjá hæstráðendum albanska knattspyrnusambandsins.

Panucci tók við albanska landsliðinu af landa sínum, Gianni De Biasi í júlí 2017. Hann stýrði Albaníu í 15 leikjum; fjórir þeirra unnust, tveir enduðu með jafntefli og níu töpuðust. Panucci átti farsælan feril sem leikmaður og vann m.a. Meistaradeild Evrópu bæði með AC Milan og Real Madrid.

Albanía komst á EM 2016 en síðan hefur lítið gengið hjá liðinu. Albanir lentu í 3. sæti síns riðils í undankeppni HM 2018 og enduðu í neðsta sæti síns riðils í Þjóðadeildinni.

Ervin Bulku og Sulejman Mema stýra Albaníu þegar liðið mætir Andorra í undankeppni EM á mánudaginn. Andorra tapaði 0-2 fyrir Íslandi í gær.

Ísland mætir Albaníu á Laugardalsvellinum 8. júní. Þann 10. september mætast liðin í Albaníu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×