Fótbolti

Strákarnir æfa á Stade de France í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í París skrifar
Úr leik Frakklands og Íslands í 8-liða úrslitum EM 2016. Frakkar unnu leikinn, 5-2.
Úr leik Frakklands og Íslands í 8-liða úrslitum EM 2016. Frakkar unnu leikinn, 5-2. Vísir/Getty
Þjálfarar og leikmenn íslenska landsliðsins munu hafa stuttan tíma til að undirbúa sig fyrir leik gegn heimsmeisturum Frakklands í París. Leikurinn fer fram á mánudagskvöld en liðið kom til frönsku höfuðborgarinnar í gærkvöldi.

Eins og Freyr Alexandersson lýsti í viðtali fyrr í vikunni fengu okkar menn að sofa út í gærmorgun, sælir eftir 2-0 sigur á Andorra kvöldið áður. Það var skylduverk sem tókst að klára með sóma.

Áður en haldið var af stað úr Pýreneafjöllunum um miðjan dag í gær tóku leikmenn létta æfingu og þeir sem spiluðu fóru í svokallaða endurheimt. Hópurinn keyrði svo til Barcelona síðdegis, borðaði kvöldmat og flaug til Parísar um kvöldið.

Því er æfing íslenska liðsins á Stade de France síðdegis, keppnisvellinum, eina almennilega æfingin fyrir leikinn gegn sjálfum heimsmeisturunum á morgun. Æfingin hefst klukkan 16.30 að íslenskum tíma en blaðamannafundur Íslands er 30 mínútum fyrr. Þar munu að venju þjálfarinn Erik Hamren og fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson sitja fyrir svörum.

Vísir verður vitanlega á staðnum og flytur lesendum sínum fréttir af landsliðinu um leið og þær berast.

Vísir fylgir eftir strákunum okkar á leið þeirra á lokakeppni EM 2020 í knattspyrnu. Stöð 2 Sport sýnir fjölda leikja í undankeppninni næstu daga, fylgstu með dagskránni á stod2.is.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×