Fótbolti

Aron: Fleiri tilfinningar um leikinn gegn Austurríki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í París skrifar
Aron Einar Gunnarsson og félagar í íslenska landsliðinu mæta Frökkum á þjóðarleikvanginum Stade de France í kvöld. Margir af þeim sem eru í landsliðinu í dag voru á EM 2016 en Ísland lék tvívegis á sama leikvangi í þeirri keppni.

Aron viðurkennir fúslega að það séu ýmsar tilfinningar sem hafi komið upp þegar hann kom á leikvanginn á ný í gær, þegar Ísland æfði þar síðdegis.

„Það eru bæði skemmtilegar tilfinningar og svekkjandi. Það stendur þó upp úr að ég man meira eftir leiknum gegn Austurríki. Maður er búinn að grafa hitt niður einhversstaðar,“ sagði Aron og hló.

Í umræddum leik gegn Austurríki tryggðu okkar menn sér sæti í 16-liða úrslitum keppninnar með því að vinna 2-1 sigur en Arnór Ingvi Traustason skoraði þá frægt mark á lokamínútum leiksins.

Strákarnir fóru svo aftur til Parísar til að spila við Frakka í fjórðungsúrslitum en þar urðu heimamenn betur, 5-2. Frakkar töpuðu svo fyrir Portúgal í úrslitaleik mótsins en bættu upp fyrir það síðasta sumar er þeir urðu heimsmeistarar. Aron er eins og aðrir spenntur fyrir því að mæta besta landsliði heims.

„Maður er í þessu til að spila við þessi lið og þessa leiki. Við höfum staðið í þeim áður þannig að það er kominn tími á okkur að halda því ferli áfram. Við þurfum að halda áfram að bæta okkur og finna áfram sem lið. Þetta verður erfiður leikur á morgun þar sem við verðum mikið í varnarvinnu en okkur líður vel þar,“ sagði fyrirliðinn.

Frakkland er með marga af bestu leikmenn heims í sínu liði og Aron Einar segir að það sé skemmtileg áskorun að fá að glíma við þá.

„Maður sér hvar maður stendur þegar maður spilar við svona gæja. Þeir eru óvægir, halda áfram þó svo að þeim mistakist og koma aftur og aftur. Maður þarf því að vera á tánum allan leikinn ef maður ætlar að stoppa þessa gæja.“

Vísir fylgir eftir strákunum okkar á leið þeirra á lokakeppni EM 2020 í knattspyrnu. Stöð 2 Sport sýnir fjölda leikja í undankeppninni næstu daga, fylgstu með dagskránni á stod2.is.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×