Búið er að aflýsa flugi WOW air til Keflavíkur frá Gatwick flugvelli í London í kvöld. Ráðgert var að flogið yrði frá Lundúnum seint í kvöld, en nú er ljóst að ekkert verður af því. Þetta er annað flug WOW frá Gatwick sem aflýst hefur verið í dag. Mbl greinir frá þessu.
Í skilaboðum sem farþegum voru send kom fram að fluginu hafi verið aflýst vegna takmarkanna í rekstri félagsins (e. operational restrictions).
Í frétt RÚV um málið er haft eftir Svanhvíti Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW, að allar ferðir félagsins verði á áætlun á morgun.
Ljóst er að staða WOW er nokkuð þröng en í gær var tilkynnt að Icelandair Group hefði tekið ákvörðun um að koma ekki að rekstri félagsins sökum fjárhagsstöðu WOW. Þetta voru aðrar viðræður Icelandair og WOW um mögulegan samruna eða fjárfestingu fyrrnefnda félagsins í því seinna.
Í millitíðinni hófust viðræður bandaríska fjárfestingasjóðsins Indigo Partners um fjárfestingu í WOW en það gekk ekki eftir.
