Fótbolti

Gylfi: Frakkar 3-4 númerum of stórir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
„Þetta var erfiður leikur eins og við vissum. Við vorum örugglega að spila á móti besta liði heims. Þeir búa yfir miklum gæðum og þeir spila vel saman. Sóknin þeirra er frábær,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson í samtali við Vísi eftir 4-0 tap fyrir Frakklandi á Stade de France í kvöld.

Frakkar komust yfir á 12. mínútu og staðan var 1-0 þar til 22 mínútur voru til leiksloka. Þá skoraði Olivier Giroud annað mark heimamanna og þeir bættu svo tveimur mörkum við undir lokin.

„Það var mjög svekkjandi að fá á sig mark eftir fast leikatriði. Við erum mjög ósáttir við það en þeir fengu það mörg færi að þeir hefðu getað skorað á annan hátt,“ sagði Gylfi.

„Staðan var 1-0 og við ætluðum að reyna að halda henni þannig. Í stöðunni 2-0 þurftum við að taka áhættu og þeir eru duglegir að refsa.“

Frakkar einokuðu boltann í leiknum og þegar Íslendingar unnu hann töpuðu þeir honum fljótt aftur.

„Mjög illa,“ sagði Gylfi, aðspurður um hvernig íslenska liðinu hefði gengið að halda boltanum í leiknum.

„Við vorum mjög aftarlega og þegar við unnum boltann voru fáir frammi. Við vorum ekki með neina kantmenn í dag og það var því erfitt fyrir mig og Albert [Guðmundsson] að halda boltanum. Spilið var langt frá því að vera nógu gott.“

Gylfi lék í fremstu víglínu í leiknum í dag. En hefði hann viljað leika á miðjunni?

„Já og nei. Ég er sáttur í báðum stöðum. Ég hefði kannski verið meira í boltanum ef ég hefði verið aftar. En við vorum það lítið með boltann að ég held að það hafi ekki skipt máli,“ sagði Gylfi.

Hann segir að franska liðið hafi einfaldlega verið miklu sterkara í leiknum í dag.

„Þeir voru svona 3-4 númerum of stórir. Þeir eru örugglega besta lið heims í dag ásamt Belgum. Þetta var kannski ekki leikurinn sem við bjuggumst við að fá þrjú stig en heimaleikurinn gegn þeim skiptir meira máli. Við erum mjög svekktir með úrslitin og frammistöðuna,“ sagði Gylfi að lokum.


Tengdar fréttir

Aron Einar: Illa tapað hjá okkur

Aron Einar Gunnarsson var svekktur eftir leik Íslands og Frakklands á Stade de France í undankeppni EM 2020 í kvöld og sagði íslenska liðið hafa tapað illa.

Hamren: Þeir skoruðu of mikið

Landsliðsþjálfari Íslands, Erik Hamrén, hrósaði Frökkum fyrir góða frammistöðu í 4-0 sigri á Íslandi í undankeppni EM 2020 í kvöld. Hann sagði hausinn hafa farið hjá íslenska liðinu eftir annað mark Frakka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×