Fótbolti

Eins ítölsk endurkoma og þær gerast í sigri á lærisveinum Helga

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fabio Quagliarella mætti aftur eftir níu ár og skoraði tvö.
Fabio Quagliarella mætti aftur eftir níu ár og skoraði tvö. vísir/getty
Helgi Kolviðsson, fyrrverandi aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins í fótbolta, og lærisveinar hans í landsliði Lichtenstein máttu þola skell gegn Ítalíu í undankeppni EM 2020 í gærkvöldi, 6-0.

Ítalska liðið komst í 2-0 á fyrsta hálftímanum en þá var komið að þætti Fabio Quagliarella sem skoraði næstu tvö mörk úr vítaspyrnum á 34. og 45. mínútu.

Quagliarella varð með fyrra markinu elsti leikmaðurinn til að skora fyrir ítalska landsliðið í sögunni en hann var 36 ára og 54 daga gamall í gær. Hann bætti met Christian Panucci um tæpt ár og kom sér þannig í metabækurnar.

Það var bara í síðasta leik Ítalíu á móti Finnlandi sem að Moise Kean, leikmaður Juventus, varð næst yngsti leikmaðurinn til að skora fyrir ítalska landsliðið frá upphafi og sá yngsti í 60 ár.



Mörkin voru í raun stórmerkileg því Quagliarella hafði fyrir þessa landsleiki tvo gegn Finnlandi og Lichtenstein ekki spilað landsleik í níu ár en hann kom síðast við sögu í lok nóvember 2010 í vináttuleik á móti Rúmeníu og lagði upp mark Ítalíu í 1-1 jafntefli.

Á síðustu níu árum hefur hann tvisvar sinnum verið kallaður inn í landsliðshópinn en ekkert fengið að spila. Endurkoman var því í raun eins ítölsk og þær gerast en ítalskir framherjar eru þekktir fyrir því að toppa mun seinna en aðrir.

Til marks um það má benda á að Quagliarella, sem er svo það sé endurtekið, 36 ára gamall, markahæstur í ítölsku A-deildinni með 21 í 27 leikjum en hann spilar fyrir Sampdoria sem er um miðja deild.

Quagliarella skoraði 19 mörk í 35 leikjum á síðustu leiktíð og tólf mörk í 37 leikjum tímabilið á undan því þannig að hann verður bara betri með aldrinum eins og gott ítalskt rauðvín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×