Körfubolti

Tíu ár frá besta körfuboltaleik Íslandssögunnar | Myndband

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson og Sverrir Sverrisson í leiknum ógleymanlega. Jón er enn að spila en Sverrir þjálfar nú Keflavíkurliðið.
Jón Arnór Stefánsson og Sverrir Sverrisson í leiknum ógleymanlega. Jón er enn að spila en Sverrir þjálfar nú Keflavíkurliðið. vísir/vilhelm
Þeir sem lögðu leið sína í DHL-höllina föstudagskvöldið 27. mars árið 2009 munu aldrei gleyma því sem þeir sáu það kvöld. Þar var í boði körfuboltaleikur sem aldrei gleymist enda einstakur.

Þetta var þriðji leikur KR og Keflavíkur í úrslitakeppninni en staðan fyrir leikinn var 2-0 fyrir KR.

Það þurfti hvorki meira né minna til en fjórar framlengingar til þess að knýja fram úrslit. Lokatölur 129-124 fyrir KR í leik sem hélt áhorfendum sveittum langt fram á kvöld. Þetta var í undanúrslitum Íslandsmótsins en KR varð svo meistari eftir að hafa lagt Grindavík í úrslitarimmunni.

Þessa leiks er líklega helst minnst fyrir lygilega þriggja stiga körfu Jóns Arnórs Stefánssonar í lok annarrar framlengingar. Hann skaut nánast af bekk Keflavíkur til þess að þvinga fram þriðju framlenginguna.

Keflvíkingurinn Hörður Axel Vilhjálmsson setti Íslandsmet með því að spila allar mínúturnar í leiknum. Það met verður líklega seint slegið en þetta var aðeins í annað sinn sem leikur er fjórframlengdur í efstu deild.

Jesse Pellot-Rosa spilaði í 58 og hálfa mínútu fyrir Keflavík og skoraði 51 stig í leiknum. Var ótrúlegur en bugaður eftir leik.

Hér að neðan má sjá fréttamyndskeið af leiknum ógleymanlega sem líklega er sá besti í íslenskri körfuboltasögu og sá besti að margra mati enda slíkur leikur ekki beint daglegt brauð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×