Viðskipti innlent

Icelandair hækkar hratt meðan annað hrynur

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vél Icelandair á Keflavíkurflugvelli í vetrarveðrinu í morgun.
Vél Icelandair á Keflavíkurflugvelli í vetrarveðrinu í morgun. Vísir/Vilhelm
Icelandair rýkur upp í fyrstu viðskiptum dagsins í Kauphöllinni meðfram veikingu krónunnar. Ætla má að það tengist beint afdrifum eins helsta keppinautarins, WOW air, sem tilkynnti að flugfélagið hefði hætt starfsemi í morgun. Flest önnur félög í Kauphöllinni hafa lækkað umtalsvert.

Sem stendur hefur gengi bréfa Icelandair hækkað um rúm 22 prósent. Rétt er að taka fram að skammt er liðið frá opnun markaðarins og því mun þetta eflaust sveiflast mikið eftir því sem líður á daginn.

Lækkun annarra félaga nemur á bilinu 2 til 4 prósent. Arion og Eimskip hafa lækkað mest sem af er degi, en fyrrnefnda félagið greindi frá því í morgun að fall WOW myndi ekki hafa bein veruleg áhrif á rekstur bankans.

Gengi bréfa HB Granda og Marel hafa þó hækkað lítillega í morgun. Gengi íslensku krónunnar veikist samhliða þessum vendingum, hefur veikst um rúmt prósent sem stendur. 

Breska pundið kostar nú rúmlega 160 krónur, bandaríkjadalurinn rúmlega 122 og evran rúmlega 137 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×