Erlent

Efnileg hljómsveit fórst í bílslysi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Her's samanstóð af þeim Stephen Fitzpatrick og Audun Laading en þeir kynntust í Liverpoolborg.
Her's samanstóð af þeim Stephen Fitzpatrick og Audun Laading en þeir kynntust í Liverpoolborg. Heist or hit
Báðir meðlimir Liverpoolsveitarinnar Her's, sem og umboðsmaður þeirra, létust í bílslysi í Bandaríkjunum á miðvikudag.

Útgáfufélag sveitarinnar greinir frá því að dúettinn, sem samanstendur af hinum breska Stephen Fitzpatrick og Norðmanninum Audun Laading, hafi verið aka á tónleikastað í Santa Ana í Kaliforníuríki þegar slysið varð. Þeir höfðu ásamt umboðsmanni þeirra, Trevor Engelbrektson, ekið frá Phoenix í Arizona þar sem þeir höfðu spilað á tónleikum kvöldið áður. Alls ætluðu þeir sér að leika á 19 tónleikum í Bandaríkjaferð sinni.

Þeir höfðu nýverið gefið út sína fyrstu plötu og voru af mörgum taldir meðal mest spennandi hljómsveita Bretlandseyja. Í yfirlýsingu frá útgáfufélagi Her's er þeirra Fitzpatrick og Laading minnst með hlýhug. Þeir hafi verið vinalegir, kurteisir og miklir brandarakallar. „Það var alltaf upplífgandi stund þegar þeir kíktu við á skrifstofunni hjá okkur,“ segir í yfirlýsingu Heist or Hit.

„Þeir spiluðu fyrir þúsundir aðdáenda í Bandaríkjunum. Aðdáendur sem þeir lögðu sig í lima við að hitta og verja tíma með, slík var ástríða þeirra og auðmýkt. Þeir áttu framtíðina fyrir sér.“

Samúðarkveðjum rignir yfir sveitina á Facebook-síðu þeirra, sem nálgast má hér. Að neðan má heyra eitt vinsælasta lag sveitarinnar, Cool With You.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×