Körfubolti

Ívar: Það er eins og allir innan liðsins séu að drífa sig í frí

Axel Örn Sæmundsson skrifar
Ívar var ekki sáttur í kvöld en hann hættir eftir tímabilð.
Ívar var ekki sáttur í kvöld en hann hættir eftir tímabilð. vísir/bára
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, segir að sínir menn hafi einfaldlega bara ekki verið tilbúnir er liðið tapaði stórt gegn Þór Þorlákshöfn á útivelli í Dominos-deild karla í dag.

„Vorum slakir og Þórsararnir mjög góðir þannig þetta er bara svekkelsi,“ sagði Ívar Ásgrímsson í leikslok.

„Þeir ýttu okkur úr öllum aðgerðum og við lendum í öllum pikkum. Við ýttum þeim aldrei og eins og þú sérð þá skorum við annan leikin í röð í kringum 70 stig. Við brennum vítum og opnum lay-upum þannig að við erum bara búnir að vera slakir eftir þetta frí. Það kom enginn tilbúinn.“

Fyrri hálfleikur var gríðarlega slæmur hjá Haukum bæði varnar sem og sóknarlega. Þeir tóku fá fráköst og voru að tapa boltanum mikið.

„Við litum mjög illa út, ég hef engin svör. Við vorum ekki tilbúnir að leggja okkur fram, það er eins og allir innan liðsins séu að drífa sig í frí.“

Haukar eiga einn leik eftir í deildinni en þeir spila við Stjörnuna á útivelli. Þeir þurfa nauðsynlega að vinna þann leik til að eiga séns á úrslitakeppnissæti. Hverju þurfa Haukar að breyta til að eiga séns?

„Við þurfum að sýna metnað og þá sérstaklega varnarlega. Útlendingurinn okkar var ekki góður en hann kannski dettur niður með liðinu, svona heilt yfir höfum við bara verið frekar slakir.“

„Við vorum ekki með nægilega líkamlega sterkt lið inná til að matcha þessa menn. Við erum með meidda menn en við höfum komist í gegnum veturinn þrátt fyrir meiðsli. Það er bara of stór biti fyrir okkur.“


Tengdar fréttir

Hættir með Hauka í vor

Ívar Ásgrímsson lætur af störfum sem þjálfari Hauka eftir tímabilið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×