Erlent

Spánverjar ætla að grafa upp líkið af einræðisherranum Franco

Kjartan Kjartansson skrifar
Spænsk stjórnvöld vilja gera Dal þeirra föllnu að minnisvarða um fórnarlömb borgarastríðsins sem geisaði frá 1936 til 1939.
Spænsk stjórnvöld vilja gera Dal þeirra föllnu að minnisvarða um fórnarlömb borgarastríðsins sem geisaði frá 1936 til 1939. Vísir/EPA
Ríkisstjórn Spánar tilkynnti í dag að hún ætlaði að láta grafa upp lík Francisco Franco, fyrrverandi einræðisherra landsins, og fjarlægja það úr opinberum grafreit. Uppgreftrinum hefur ítrekað verið frestað í gegnum tíðina en skiptar skoðanir eru á honum á meðal landsmanna.

Lík Franco hefur hvílt í grafhýsi í Dal þeirra föllnu (sp. Valle de los Caídos) fyrir ofan höfuðborgina Madrid. Grafhýsið er í augum margra Spánverja nokkurs konar minnisvarði um fasistatímabilið í sögu landsins. Franco réði ríkjum á Spáni frá lokum borgarastríðsins árið 1939 til 1975.

Nú á að flytja líkið þaðan og grafa það við hlið konu hans í fjölskyldugrafhýsi hans í Mingorrubio El Pardo-ríkisgrafreitnum. Fjöldi stjórnmálaleiðtoga er grafinn þar. Uppgröfturinn á að fara fram 10. júní, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Fjölskylda Franco er andsnúin uppgreftrinum og farið með málið fyrir dómstóla. Hún hefur sagt að verði hann grafinn upp á annað borð ætti hann að hvíla við hlið dóttur sinnar í Almudena-dómkirkjunni í miðborgar Madridar.

Ákvörðunin um uppgröftinn er ein sú síðasta sem fráfarandi ríkisstjórn Sósíalistaflokksins tekur. Þingkosningum var flýtt á Spáni eftir að ríkisstjórninni mistókst að koma fjárlögum sínum í gegnum þingið. Kosið verður til þings 28. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×