Samninganefnd iðnaðarmanna hafa slitið viðræðum við Samtök atvinnlífsins eftir að hafa setið fund hjá ríkissáttasemjara sem hófst klukkan 11.
„Staða viðræðna var þannig að þetta þokaðist ekkert áfram hjá okkur þrátt fyrir að við höfum setið við samningaborðið núna í dágóðan tíma. Það voru í rauninni ákveðnar kröfur hjá atvinnurekendum sem ýttu okkur frá þessu borði og gerði það að verkum að við teljum að það verði ekki komist lengra að sinni.“
Þetta segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, sem er talsmaður þeirra iðnaðarmannafélaga sem eru í samfloti en félagsmenn eru um sextán þúsund manns.
Kristján sagðist ekki getað tjáð sig nánar um hvaða kröfur þetta væru nákvæmlega en staðfesti þó við blaðamann að tengdust vinnutímamálum.
„Núna munum við leita í bakland okkar og meta næstu skref og það, auðvitað, mun þýða að menn þurfa að afla sér heimilda til að fara í einhver meiri átök til að búa til þrýsting á viðsemjendur okkar.“
Fréttin er í vinnslu og verður uppfærð.

