Innherjagoðsögnin Jason Witten hefur ákveðið að draga fram skóna ári eftir að hann lagði þá á hilluna. Hann mun að sjálfsögðu spila áfram með Dallas Cowboys.
Hinn 36 ára gamli Witten hætti eftir glæstan feril og var í teymi ESPN sem sá um mánudagsleikina í NFL-deildinni á síðasta tímabili.
Eitthvað leiddist honum í sjónvarpinu því hann er búinn að semja við Kúrekana. Hann fær að lágmarki 420 milljónir króna fyrir næsta tímabil og ef vel gengur gæti hann fengið 600 milljónir króna í veskið.
„Eldurinn logar enn of glatt inn í mér. Þetta lið hefur allt til að bera og ég vil hjálpa því. Ég get ekki beðið eftir því að taka á því á nýjan leik,“ sagði Witten sem verður 37 ára í maí.
Á fimmtán ára ferli var Witten ellefu sinnum valinn í stjörnuleik NFL-deildarinnar. Hann greip 1.152 sendingar sem er það fjórða besta í sögu deildarinnar og félagsmet hjá Cowboys. Hann á einnig fjölda annarra meta hjá félaginu.
Margir gleðjast yfir því að Witten sé að koma aftur þar sem hann sé bestur. Hann þótti nefnilega ekki standa sig sem skildi í sjónvarpinu.
Úr sjónvarpinu og aftur í fótboltabúninginn
Henry Birgir Gunnarsson skrifar
