Utanríkisráðherra Rússlands segir stjórnvöld í Kreml tilbúin í tvíhliða viðræður við Bandaríkjastjórn um ástandið í Venesúela. Hann ræddi við bandarískan starfsbróður sinn í síma í gærkvöldi og lagði áherslu á að virða þyrfti rétt venesúelsku þjóðarinnar til að ákveða framtíð sína.
Ríkin tvö hafa verið á öndverðum meiði í afstöðu sinni til atburða í Venesúela. Bandaríkjastjórn hefur viðurkennt Juan Guaidó, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sem handhafa forsetavalds en Rússar styðja Nicolás Maduro, forseta landsins.
Reuters-fréttastofan segir að Sergei Lavrov, rússneski utanríkisráðherrann, hafi fordæmt hótanir Bandaríkjastjórnar í garð „lögmætrar forystu“ Venesúela í símtali þeirra Mike Pompeo í gær. Sagði hann að fara yrði eftir grunngildum stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna hvað varðaði sjálfsákvörðunarrétt Venesúelabúa.
Bandaríkjastjórn hefur lagt viðskiptaþvinganir á sex liðsmenn öryggissveita Maduro og afturkallað landvistarleyfi tuga samstarfsmanna Maduro og fjölskyldna þeirra.
Rússar segjast tilbúnir í viðræður um Venesúela

Tengdar fréttir

Guaido segir hermenn snúa baki við Maduro
Juan Guaido, starfandi forseti Venesúela, segir að 600 hermenn hafi snúið baki við Nicolas Maduro, forseta Venesúela, á síðustu dögum. Bandaríkin setja nýjar þvinganir á sex háttsetta embættismenn í Maduro-stjórninni.

Þrýstingur á Maduro eykst
Juan Guaidó, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela, kallaði eftir því í gær að alþjóðasamfélagið grípi til allra hugsanlegra aðgerða til að koma sitjandi forseta landsins, Nicolas Maduro, frá völdum.

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir daga Maduro talda
Pompeo var ómyrkur í máli í samtali við CNN í dag.