Körfubolti

Ingi Þór: Seinni hálfleikur var frábær

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ingi Þór var afar ánægður með sigurinn í kvöld.
Ingi Þór var afar ánægður með sigurinn í kvöld. Vísir/Eyþór
„Við erum stoltir af sjálfum okkur hér í dag, þetta var geggjaður sigur. Við vorum rosalega mjúkir í einhverjar tuttugu mínútur í vörninni. Ein lauflétt breyting í hálfleik og það varð allt annar bragur á vörninni. Mikið hrós á liðið í heildinni,“ sagði kampakátur þjálfari KR, Ingi Þór Steinþórsson, eftir sigur á Grindavík í kvöld.

„Við settum Kristófer á Lewis (Clinch) og tókum hann af Óla, settum bakvörð í staðinn á hann. Það virkaði. Við vorum búnir að fá 18 stig stig á okkur frá Ingva og með þessu náðum við að stoppa þar sem þeir voru búnir að gera. Þetta var eins og göngutúr fyrir þá í fyrri hálfleik.“

Grindvíkingar leiddu mest allan tímann og komust mest í sextán stiga forskot í þriðja leikhluta. KR fór þá að bíta frá sér, minnkuðu muninn jafnt og þétt og eftir 11-2 kafla í upphafi fjórða leikhluta náðu þeir forystu sem þeir létu aldrei af hendi eftir það.

„Það er eins og við höfum hörfað eftir þessar villur sem við fengum í byrjun. Við ætluðum að berjast og það var mikið dæmt í byrjun eins og oft er. Við bara bökkuðum og gáfum þeim það pláss sem þeir þurfa. Þeir eru gott skotlið og maður gefur góðu skotliði ekki pláss til að skjóta. Seinni hálfleikur var frábær hjá okkur.“

Mike Di Nunno var magnaður hjá KR í kvöld, skoraði 32 stig og áttu Grindvíkingar í stökustu vandræðum með að stöðva hann.

„Hann er búinn að vera heima hjá sér í myrkvuðu herbergi með skurð á höfði síðan í leiknum gegn Þór. Það er mjög jákvætt að fá þessa frammistöðu frá honum í dag. Við vissum að við þyrftum frammistöðu í dag frá öðrum, Jón og Pavel voru ekki með. Mér fannst frammistaðan, ekki bara hjá Mike, heldur öðrum alveg til fyrirmyndar,“ sagði Ingi Þór að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×