Skoðun

Heiðarleiki

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
Allt frá hruni hefur þjóðin borið lítið sem ekkert traust til bankakerfisins enda eru stjórnendur þess með ofurlaun á sama tíma og bankinn hirðir alls kyns óþarfa gjöld af viðskiptavinum. Það ætti að vera nánast ómögulegt fyrir aðrar stofnanir að skáka bönkunum í óvinsældum. Íslenskum stjórnmálamönnum hefur samt tekist það.

Í nýrri mælingu Gallups á trausti til stofnana kemur í ljós að traust almennings á Alþingi og borgarstjórn Reykjavíkur er enn minna en á bönkunum. Traust til Alþingis var að hífast upp, en þá fóru nokkrir fulltrúar þjóðarinnar á alræmt fyllirí. Þeir sitja enn á þingi, í óþökk þjóðarinnar. Nú er traust til Alþingis 18 prósent og í sömu könnun mælist minnst traust til borgarstjórnar eða 16 prósent. Það hefur ekki farið framhjá þjóðinni að algjör ringulreið ríkir í Ráðhúsinu og hún sér enga ástæðu til að treysta þeim fulltrúum sínum sem þar sitja. Klögumálin sem ganga á milli þessara fylkinga eru ekki sæmandi kjörnum fulltrúum þjóðarinnar. Þar ber minnihlutinn reyndar mun meiri sök en meirihlutinn, en burtséð frá því þá er ljóst að gríðarleg orka fer í argaþras þegar hún ætti að nýtast til uppbyggilegra starfa í þágu borgarbúa.

Kjörnir fulltrúar þjóðarinnar, á Alþingi og í Ráðhúsinu, eiga mikið verk fyrir höndum ætli þeir sér að endurheimta traust þjóðarinnar. Ekki er sjálfsagt að það takist. Það má samt koma auga á ljósglætu. Á sama tíma og þjóðin er enn eina ferðina að gefast upp á stjórnmálamönnum sínum var forsætisráðherra þjóðarinnar, Katrín Jakobsdóttir, yngsti kvenleiðtogi Evrópu, valin ein af tuttugu áhrifamestu konum heims af við­skipta­tíma­ritinu CEO Mag­azine. Tímaritið sagði konurnar á listanum eiga það sameiginlegt að vilja og leitast við að gera heiminn betri – og það veitir svo sannarlega ekki af því.

Landsmenn ættu að vera stoltir af Katrínu Jakobsdóttur, hvort sem þeir fylgja flokki hennar að málum eða ekki. Hún er heiðarleg og hreinskilin, hörkudugleg og með jarðsamband. Fyrir ekki ýkja mörgum árum áttu Íslendingar aðra konu sem gegndi starfi forsætisráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, og hafði einnig þessa eiginleika til að bera, en á sínum tíma setti Forbes hana á lista yfir valdamestu konur heims. Síst af öllu hafa Katrín og Jóhanna gert sig sekar um að skandalísera úti í bæ, eins og of margir stjórnmálamenn hafa á samviskunni, og yfirleitt komist upp með. Mjög var þjarmað að Jóhönnu á sínum tíma og Katrín fær sömuleiðis sínar skammir. Enginn stjórnmálamaður er hafinn yfir gagnrýni en það mega þessar tvær konur eiga að hvorug þeirra verður kennd við klækjastjórnmál. Það þarf fleiri þeirra líka í stjórnmálin.

Það er nóg komið af stjórnmálamönnum sem stunda framapot af mikilli elju, telja ýmiss konar hrossakaup vera sjálfsagðan hluta af starfinu og hafa um leið stórar og miklar hugmyndir um eigið ágæti. Ef heiðarleiki væri ríkjandi afl í íslenskri pólitík væri traust til stjórnmálamanna mun meira en nú er.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×