Skoðun

Gullfiskaminni

Guðmundur Brynjólfsson skrifar
Það er stundum haft á orði þegar þjóð vor hefur eina ferðina enn kosið yfir sig hatara sína og kvalara að hún hafi gullfiskaminni. Hún virðist aldrei geta munað þetta á milli kjördaga:

„Alhliða blekkingar

Einhliða refsingar“

Þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég horfði á Söngvakeppni Sjónvarpsins á laugardagskvöldið. Rifjaðist upp, eru akkúrat réttu orðin því auðvitað mundi ég þetta hvorki skýrt né örugglega.

Hvað var það í söngvakeppninni sem fékk mig til þess að muna þetta? Jú, þegar ég sá að forráðamenn keppninnar gerðu ráð fyrir því að þjóðin væri ekki bara með gullfiskaminni heldur algjörlega heiladauð.

Mig minnir að lögin hafi verið rifjuð upp 42 sinnum svo menn gætu greitt atkvæði og rámað í hvernig flutningurinn var og svo menn mættu átta sig á því að Byggðarhornssvipurinn tilheyrir Heru en Friðrik Ómar er meira svona Fiskidagurinn mikli. Ekkert var gert í því að rifja upp andlitið á Gísla Marteini – enda óþarfi. Myndin af Dorian Gray er klassík og „Gleðin tekur enda“.

Reyndar tók það þessa blessuðu keppni einhverjar 30 mínútur að byrja eftir að hún var byrjuð og maður var farinn að hafa áhyggjur af því að lögin myndu eldast illa. Svo ekki sé talað um keppendur, því „Tómið heimtir alla“. En þetta bjargaðist allt. Úrslitin voru eins og í öllum alþingiskosningum á lýðveldistímanum, hatrið sigraði.

Auðvitað voru ekki allir á eitt sáttir, líkt og þegar þingkosningar eru gerðar upp. En ólíkt því sem er í uppgjöri alþingiskosninga þá geta ekki allir sagt að þeir hafi unnið í söngvakeppninni. Þar vinnur bara einn flokkur. Sem er mikil lausn fyrir minnislausa þjóð. Það er landsmönnum léttir að þurfa ekki að muna margt, þetta verður bara áfram eins: Hatrið mun sigra!




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×