Wow air hefur ekki greitt mótframlagsgreiðslur í lífeyris- og séreignarsparnað síðustu þrjá mánuði og voru starfsmenn fyrst látnir vita í dag.
Í skriflegu svari til fréttastofu frá Svanhvíti Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa Wow air, segir að vegna skammtíma lausafjárþrenginga WOW air hafi félagið neyðst til þess að fresta mótframlagsgreiðslum í lífeyris- og séreignarsparnað síðustu þrjá mánuði. Hlutur starfsmanna hafi þó verið greiddur að fullu.
Þá segir að WOW air hafi verið í góðum samskiptum við lífeyris- og séreignasjóði. Gengið verði frá greiðslum í þessum mánuði. Starfsfólk WOW air hafi verið upplýst um stöðuna fyrr í dag.
„Þetta eru bara vanskil,“ segir Magnús M. Norðdahl, deildarstjóri lögfræðideildar Alþýðusambands Íslands, í samtali við fréttastofu um málið.
Hann segir þetta þó ekki hegningarlagabrot þar sem WOW air sé bara í vanskilum með sinn hluta.
„Ef þeir hefðu ekki skilað því sem þeir drógu af starfsmönnum, hvort sem það er í séreign eða sameign, þá hefði það verið fjárdráttur,“ segir Magnús.
Fyrirtækjum ber skylda til að greiða iðgjaldaframlög í lífeyrissjóði samkvæmt lögum um lífeyrissjóði og séreignasparnað ber einnig skylda til að greiða samkvæmt kjarasamningum.
„Þeir eru bara í vanskilum með þetta hvoru tveggja,“ segir Magnús.
Hann segir allt of algengt að fyrirtæki lendi í vanskilum með launatengd gjöld.
„Því miður þá verður að segjast eins og er að ábyrgðarsjóður launa, sem er fjármagnaður með sérstöku gjaldi sem allt atvinnulífið í landinu borgar, og borgar kröfur sem verða til sem svokallaðar forgangskröfur í þrotabúum, þá er þetta allt of algengt. Þar á meðal eru kröfur um vangreidd laun launafólks og iðgjöld til lífeyrissjóða. Það eru háar fjárhæðir sem eru greiddar úr ábyrgðarsjóði launa hvert ár.“
