Innlent

RÚV með tuttugu prósent af samanlögðum tekjum fjölmiðla

Jakob Bjarnar skrifar
Samanlagðar tekjur fjölmiðla námu 27,9 milljörðum króna.
Samanlagðar tekjur fjölmiðla námu 27,9 milljörðum króna. visir/vilhelm
Tuttugu prósent af öllum tekjum sem fjölmiðlar hafa úr að spila renna til Ríkisútvarpsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hagstofunni. Þá kemur jafnframt fram að tekjur íslenskra fjölmiðla hafi lækkað á árinu 2017 frá fyrra ári, eða um tvo hundraðshluta reiknað á föstu verðlagi.

„Samanlagðar tekjur fjölmiðla námu 27,9 milljörðum króna. Tekjur af notendagjöldum voru tæpir 15 milljarðar og af auglýsingum og kostun rúmlega 13 milljarður króna. Samanlagðar tekjur fjölmiðla árið 2017 eru um 18 af hundraði lægri en er best lét árin 2006 og 2007.“

Í athugun Hagstofu kemur fram að helmingur tekna fjölmiðla falla til sjónvarps og fjórðungur til dagblaða og vikublaða. „Hlutdeild einkarekinna fjölmiðla nam 78 prósent af samanlögðum tekjum á fjölmiðlamarkaði og 84 prósent af auglýsingatekjum á móti 22 og 16 prósenta hlut Ríkisútvarpsins.“

Verulegur samdráttur varð í tekjum prentmiðla í kjölfar efnahagshrunsins 2008. Frá árunum 2007 til 2010 lækkuðu tekjur fjölmiðla um ríflega fjórðung reiknað á verðlagi ársins 2017. Þær hafa síðan aukist en óverulega og eru á pari við það sem var í kringum aldamót.

Hér getur að líta hlutfall auglýsingatekna og kostunar, en frá aldamótum hefur RÚV aukið mjög sókn sína hvað kostun varðar.hagstofan
Þessi tafla er athyglisverð en þar má sjá eindregna þróun hlutfallslega. Hlutdeild prentmiðla minnkar nánast ár frá ári meðan netmiðlar sækja í sig veðrið, líklega þó hægar en efni standa til.

Tengdar fréttir

RÚV er fíllinn í stofunni

Blaðamennska er sjúkdómur, segir Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokks. Óli Björn, Kolbeinn Proppé, VG og Hanna Katrín Friðriksson, Viðreisn, eru öll fyrrverandi blaðamenn. Sammála um að ef ekkert verði gert muni fækka í flóru sjálfstæðra fjölmiðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×