Körfubolti

Domino´s-Körfuboltakvöld: Uppgjöf Grindavíkur í fjórða leikhluta

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Leikurinn var skrítinn að mati Teits Örlygssonar.
Leikurinn var skrítinn að mati Teits Örlygssonar. mynd/stöð 2 sport
Grindavík var með pálmann í höndunum fyrir fjórða leikhlutann í leiknum á móti KR í Domino´s-deild karla á sunnudagskvöldið en tapaði samt leiknum eftir skelfilega frammistöðu í lokafjórðungnum.

Heimamenn voru með 22 prósent skotnýtingu í fjórða leikhluta en þeir tóku ellefu þrista og hittu ekki einu sinni. Þeir tóku 61 prósent skota sinna í leikhlutanum fyrir utan þriggja stiga línuna þegar að vel gekk almennt að fara inn í teig.

„Þetta verður til þess að Jordy Kuiper fær úr engu að moða. Hann er fimm af sex í teignum í leiknum en þeir bara leita ekki að honum. Þriggja stiga skotin sem þeir eru að taka eru líka svakalega léleg,“ sagði Hermann Hauksson, sérfræðingur Domino´s-Körfuboltakvölds, í þætti gærkvöldsins um frammistöðu Grindavíkur.

„Þetta er rosalega skrítinn körfubolti sem Grindavík er að spila og leikurinn var líka skrítinn. Grindavík fékk fínar mínútur frá strákunum af bekknum en þeir bara koðnuðu algjörlega niður í fjórða leikhluta,“ sagði Teitur Örlygsson.

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari KR, gerði taktíska breytingu í seinni hálfleik og skipti um varnarmann á Lewis Clinch Jr. sem gat ekkert í seinni hálfleik og þá sérstaklega í fjórða leikhluta.

„Brotalamirnar í leik Grindavíkur eru miklar því um leið og blæs á móti og þeir lenda á smá þröskuldi gerist eitthvað,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson og umsjónarmaður þáttarins, Kjartan Atli Kjartansson, greip boltann á lofti: „Þeir gefast upp!“

Alla umræðuna má sjá hér að neðan.

Klippa: Dominos-Körfuboltakvöld - Grindavík brotnar

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×