Innlent

Telja hættu á að Sigurður fari úr landi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigurður Kristinsson við aðalmeðferð málsins.
Sigurður Kristinsson við aðalmeðferð málsins. FBL/Anton Brink
Landsréttur staðfesti í gær fjögurra vikna farbannsúrskurð úr héraðsdómi yfir Sigurði Kristinssyni sem á dögunum var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í Skáksambandsmálinu svokallaða. Var Sigurður dæmdur fyrir skipulagningu og fjármögnun á innflutningi á fimm kílóum af amfetamíni.

Dómur var upp kveðinn föstudagin 22. febrúar en Sigurður var ekki viðstaddur dómsuppkvaðninguna. Stefán Karl Kristjánsson, verjandi Sigurðar, lýsti því yfir við dómsuppkvaðninguna að dómnum yrði áfrýjað til Landsréttar. Í framhaldinu fór héraðssaksóknari fram á farbann yfir Sigurði til fjögurra vikna.

Taldi héraðssaksóknari nauðsynlegt að tryggja nærveru Sigurðar á meðan áfrýjunarfresti stæði í málinu og eftir atvikum á meðan málið er til meðferðar hjá Landsrétti uns dómur yrði kveðinn upp þar. Stefán Karl benti á móti á að Sigurður væri íslenskur ríkisborgari og ekki með meiri tengsl við útlönd en landsmenn almennt. Farbann væri íþyngjandi úrræði og ekki ástæða til að beita því gagnvart kærða.

Féllst héraðsdómur og svo Landsréttur á að hætta væri á að Sigurður reyndi að koma sér úr landi. Sigurður var búsettur á Spáni ásamt fyrrverandi eiginkonu sinni sem féll á milli hæða í húsi þeirra með þeim afleiðingum að hún lamaðist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×