Körfubolti

Áhorfandinn með kynþáttaníðið neitar að gefa sig fram

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kristófer Acox, leikmaður KR.
Kristófer Acox, leikmaður KR. vísir/ernir
Körfuknattleiksdeild Tindastóls hefur hætt leit að einstaklingnum sem var með kynþáttaníð í garð KR-ingsins Kristófer Acox.

„Því miður þá vill enginn gefa sig fram og við eigum ekki beinar sannanir á einhvern einn einstakling,“ segir Ingólfur Geir Jónsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls.

Atvikið átti sér stað þann 30. janúar og Stólarnir skoruðu strax á hinn seka að gefa sig fram og biðjast afsökunar. Þeir fordæmdu einnig þessa hegðun sem ætti ekkert erindi í Síkið.

Snemma beindist leitin að ákveðnum hópi einstaklinga í húsinu sem gjarna stendur upp á svölunum fyrir aftan varamannabekkina.

„Við erum búnir að fara yfir allan þennan hóp og enginn vill gefa sig fram. Því miður og lítið sem við getum gert til viðbótar. Við töluðum persónulega við þennan fámenna hóp og enginn vildi gangast við verknaðinum né benda á einhvern annan,“ segir Ingólfur.

Formanninum þykir þetta mál hundleiðinlegt og vonast til að slíkt komi aldrei fyrir aftur á heimavelli Tindastóls.

„Það er ömurlegt að menn geti ekki staðið í lappirnar. Við höfum verið í átaki við að laga til orðfæri og annað í húsinu. Svona á ekki heima í íþróttum. Menn eiga ekki að segja eitthvað í íþróttahúsinu sem þeir treysta sér ekki til þess að segja við matarborðið heima hjá sér. Ef þú vilt ekki tala svona yfir þín börn þá skaltu ekki gera það við börn annarra.“


Tengdar fréttir

Körfuboltakvöld: Dæmum ekki Tindastól á einu skemmdu epli

Sérfræðingar Domino's Körfuboltakvölds á Stöð 2 Sport ræddu atvikið sem kom upp í Síkinu á Sauðárkróki á fimmtudag þegar stuðningsmaður Tindastóls beitti Kristófer Acox, leikmann KR, kynþáttafordómum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×