Maren Ueland og Louisa Vesterager Jespersen, norrænar konur á þrítugsaldri, voru á bakpokaferðalagi í Marokkó þegar þær voru myrtar á hrottalegan hátt. Margir karlmenn hafa verið handteknir og ákærðir í Marokkó vegna málsins.
Myndband sem sýnir morðið á annarri konunni fór í dreifingu á samfélagsmiðlum skömmu eftir að fréttir voru fluttar af málinu. Áður hafa menn verið ákærðir í Marokkó fyrir að hafa deilt myndbandinu.
Tveir yngri en fimmtán ára
Í frétt danska ríkisútvarpsins DR kemur fram að tólf hafi verið ákærðir fyrir ólöglega dreifingu á myndbandinu í gegnum Facebook-samskiptaforritið Messenger, eða á öðrum samfélagsmiðlum.Þá hafa tveir verið ákærðir fyrir að hafa, opinberlega og ótvírætt, lýst yfir samþykki á voðaverkinu sem framið er í myndbandinu og jafnframt lýst yfir velþóknun á efni myndbandsins, annað hvort með því að senda myndbandið áfram eða í athugasemd við deilingu á því.
Af hinum fjórtán ákærðu eru sex yngri en átján ára, þar af tveir yngri en fimmtán ára. Mál hinna tveggja síðastnefndu fer líklega aðeins fyrir nýja ungmennaglæpanefnd í Danmörku. Aðrir eru á milli 22 og 69 ára.