Þetta kemur fram í svari fjármálaskrifstofu borgarinnar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins í borgarráði. Spurðu þær Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir hversu mikla borgin hefur varið í leigubílakostnað, rekstrar- og stofnkostnað bifreiða, kaup á flugmiðum og hvernig meðhöndlun vildarpunkta fer fram.
Allir þeir flokkar sem eiga fulltrúa í borgarráði lögðu fram bókun vegna svarsins á fundinum fyrr í dag.
Borgarráðsfulltrúar meirihlutans, sem Samfylkingin, Viðreisn, Píratar og Vinstri græn skipa, sögðu í sinni bókun að farið hafi verið yfir aksturs- og bifreiðakostnað borgarinnar til hagræðingar og sparnaðar á undanförnum árum.
Segja fulltrúarnir að í svari fjármálaskrifstofunnar komi fram að mikið hafi sparast með afnámi aksturssamninga við starfsfólk borgarinnar árið 2015 en í stað aksturssamninga hafa komið akstursdagbækur og notaðir eru leigubílar í völdum tilvikum.

„Getur hræsnin orðið meiri?“
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sögðu í sinni bókun að ekkert af þessu hafi farið í útboð þrátt fyrir að fjárhæðirnar séu langt yfir viðmiðunarfjárhæðum.
„Rétt er að minna á að stefna meirihlutans er að koma öllum almenningi í strætó á sama tíma. Getur hræsnin orðið meiri? Eyðslan er bæði stjórn- og eftirlitslaus og alla yfirsýn vantar því fram kemur að yfirmaður hvers sviðs, skrifstofu eða stofnunar ákveður hvaða starfsmenn hafa heimild til að nota leigubíla að vild,“ segir í bókun Vigdísar.

Vildarpunktar tengdir kennitölu þess sem ferðast
Hún segir það með ólíkindum að Reykjavíkurborg hafi greitt rúman hálfan milljarð í bílaleigubíla á þessu tímabili. Samtals hafi kostnaður Reykjavíkurborgar vegna samgöngustyrkja numið þremur milljörðum síðastliðin átta ár.Í svari fjármálaskrifstofu borgarinnar kom fram að ekki hafi verið farið í útboð á flugfargjöldum en í gildi eru afsláttarsamningar við Icelandair. Einnig var í gildi samskonar samningur við WOW Air þar til í mars 2015 en í svarinu kemur fram að WOW vildi ekki framlengja samninginn.
Þá kemur einnig fram í svarinu að vildarpunktar, sem skapast við flugmiðakaup, eru tengdir kennitölu þess sem ferðast og falla því ekki í skaut þess sem greiðir fargjaldið, það er að segja borgarinnar.

Taldi hækkunina sláandi
Í svari fjármálaskrifstofunnar kemur fram að yfirmenn hvers sviðs, skrifstofu eða stofnunar ákveði hvaða starfsmenn hafi heimild til að nota leigubíla og að hluti kostnaðarins við leigubíla sé vegna aksturs skjólstæðinga borgarinnar.Kolbrún Baldursdóttir segir í sinni bókun að spurning vakni um hvort aðhald kunni að skorta í þetta kerfi eða hvort ekki þyrfti að skoða skipulagið eitthvað nánar.
„Það er einnig sláandi að sjá hækkun sem hefur orðið t.d. frá 2011 til 2018 á kostnaði við leigubíla jafnvel þótt að skýra megi hækkunina að einhverju leyti vegna þess að árið 2014 var öllum aksturssamningum við starfsmenn borgarinnar sagt upp. Árið 2011 er kostnaður rúmar 37 milljónir en 69,5 milljónir árið 2018,“ segir í bókun Kolbrúnar.