Wow air og Indigo Partners hafa ekki gengið frá endanlegu samkomulagi um kaup bandaríska félagsins á stórum hlut í Wow air. Viðræður munu halda áfram og vonast er til að þeim verði lokið fyrir 29. mars.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Wow air. Í henni segir að forsvarsmenn Wow air og Indigo muni halda viðræðum áfram í góðri trú um að hægt sé að ganga endanlega frá samkomulagi.
Í desember á síðasta ári var tilkynnt að fjárfesting Indigo gæti numið allt að 75 milljónum bandaríkjadala, næstum 9,3 milljörðum króna. Uppfylla þyrfti þó ýmis skilyrði áður en að hægt væri að ganga frá fjárfestingunni.
Forsvarsmenn Wow air hafa síðan þá unnið að því að uppfylla þau skilyrði en meðal þess var að ná samkomulagi við fjárfesta, sem keyptu skuldabréf í útboði fyrirtækisins í fyrra, um skilmálabreytingar á skuldabréfunum. Slíkt samkomulag náðist í janúar.
Þurftu skuldabréfaeigendur meðal annars að fallast á það að gefa eftir veðtryggingar í formi hlutabréfa í WOW air og kröfu um að skuldabréfin verði skráð í kauphöllina í Stokkhólmi. Þá þurftu þeir einnig að samþykkja að WOW air myndi greiða sérstaka árlega stjórnendagreiðslu til Indigo Partners.
Í því samkomulagi var hins vegar sett það skilyrði að klára þyrfti samninginn við Indigo fyrir 28. febrúar, í dag, ella falli samkomulag við skuldabréfaeigendur niður. Var því búist við að Wow air myndi senda frá sér tilkynningu í dag í ljósi þess að fresturinn rennur út á miðnætti.
Í tilkynningu Wow air segir að ný skilmálabreyting verði lögð fyrir skuldabréfaeigendurna á næstu dögum.
