Athygli vakti að samgönguráðherra tók skýrt fram að engin ákvörðun lægi fyrir um veggjöld, en Jón Gunnarsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, hefur lýst afgreiðslu samgönguáætlunar frá Alþingi sem tímamótaskrefi í upptöku vegtolla.
„Breytingarnar er varða hugsanlega fjármögnun á framkvæmdum, flýtiframkvæmdum eða öðru, þær voru orðaðar; að það væri heimilt framkvæmdavaldinu að vinna áfram að útfærslu. Skoða leiðir. Það er engin ákvörðun búin að taka um veggjöld,“ sagði Sigurður Ingi á Sprengisandi og tók fram að samgönguráðherrann og Framsóknarflokkurinn væru ekki að berjast fyrir veggjöldum heldur framkvæmdum.
Ráðherrann sagði ennfremur í símaviðtali frá Egilsstöðum:
„Og hvaða hugsanlegar aðrar leiðir eru færar í fjármögnuninni?
Við erum í þessari samgönguáætlun að nota eignatekjur. Við erum að nota fimm og hálfan milljarð á ári, í ár og næstu tvö ár, af arðgreiðslum bankanna.
Við vitum að arðgreiðslur eru að koma frá Landsvirkjum, ekki síst, á næstu árum. Við höfum verið að ræða það að setja það í Þjóðarsjóð. Er kannski skynsamlegra að nota það í einhver ár við uppbyggingu vegakerfisins? Er það meiri ávinningur fólginn í því?
Og gera svo eitthvað í þessari gjaldtöku eftir 4-5 ár, eins og reyndar hefur alltaf verið talað um. Að gjaldtakan í flýtiframkvæmdunum yrði aldrei fyrr en eftir að framkvæmdunum væri lokið og ávinningur fólksins væri orðinn,“ sagði samgönguráðherra á Sprengisandi.
Ummæli ráðherrans má heyra í hljóðklippunni hér að neðan, annars vegar eftir 8 mínútur og 20 sekúndur og hins vegar eftir 12 mínútur og 12 sekúndur: