Erlent

Kosningum mögulega flýtt á Spáni

Kjartan Kjartansson skrifar
Ríkisstjórn Pedro Sánchez er í bobba með fjárlagafrumvarp sitt. Hann gæti boðað til kosninga á næstu dögum.
Ríkisstjórn Pedro Sánchez er í bobba með fjárlagafrumvarp sitt. Hann gæti boðað til kosninga á næstu dögum. Vísir/EPA
Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, er sagður íhuga að flýta þingkosningum um ár og halda þær 14. apríl. Útlit er fyrir að spænska þingið hafni fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar hans í vikunni.

Sósíalistaflokkur Sánchez er aðeins með fjórðung sæta í neðri deild spænska þingsins og þarf að reiða sig á stuðning minni flokka eins og katalónskra þjóðernissinna þar. Þeir hafa sagst ætla að greiða atkvæði gegn fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar þegar þingið greiðir atkvæði um það á miðvikudag.

Reuters-fréttastofan segir að spænskir embættismenn telji að líklegt sé að boðað verði til nýrra kosninga á næstunni þrátt fyrir að kjörtímabili ríkisstjórnarinnar ljúki ekki fyrr en á næsta ári. Spænska ríkisfréttastofan EFE hefur eftir heimildarmönnum sínum að Sánchez gæti boðað til kosninga þegar í apríl. Það þyrfti hann að gera í síðasta lagi þriðjudaginn 19. febrúar því samkvæmt lögum má aðeins boða til kosninga með 54 daga fyrirvara. 

Dagblaðið El País segir heimildarmenn sína telja líklegra að kosið yrði sunnudaginn 26. maí samhliða sveitarstjórnar-, sjálfstjórnarhéraðs- og Evrópuþingskosningum. Ákvörðun um flýtikosningar yrði ekki tekin fyrir eftir að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar um fjárlög í þinginu liggja fyrir á miðvikudag.

„Enginn meðlimur í stjórn Sósíalistaflokksins er að tala um 14. apríl fyrir þingkosningar,“ fullyrðir Adriana Lastra, talskona Sósíalistaflokksins við spænska dagblaðið.

Skoðanakannanir benda til þess að hægriflokkar sem hafa tekið harðari afstöðu til sjálfstæðisbaráttu Katalóna en Sánchez gætu náð meirihluta saman ef kosið yrði nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×