Erlent

Kakkalakkar og húsflugur gætu hagnast á gríðarlegri hnignun skordýra

Kjartan Kjartansson skrifar
Skordýr eins og saurbjöllur veita vistkerfum mikilvæga þjónustu eins og að nýta úrgang. Fjöldi álagsþátta ógnar nú skordýrategundum á jörðinni, þar á meðal búsvæðatap, iðnaðarlandbúnaður, eiturefnanotkun og loftslagsbreytingar.
Skordýr eins og saurbjöllur veita vistkerfum mikilvæga þjónustu eins og að nýta úrgang. Fjöldi álagsþátta ógnar nú skordýrategundum á jörðinni, þar á meðal búsvæðatap, iðnaðarlandbúnaður, eiturefnanotkun og loftslagsbreytingar. Vísir/Getty
Skordýr eins og býflugur, maurar og bjöllur hverfa nú átta sinnum hraðar en spendýr, fuglar og skriðdýr. Samantekt á niðurstöðum vísindarannsókna bendir til þess að um 40% skordýrategunda hnigni nú gríðarlega. Það gæti verið vatn á myllu annarra tegunda eins og kakkalakka og húsflugna.

Iðnaðarlandbúnaður, skordýraeitur og loftslagsbreytingar eru sagðar orsakir hnignunar skordýraríkisins á jörðinni, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Þetta kemur fram í samantekt á 73 vísindarannsóknum sem birtar hafa verið undanfarin þrettán ár og var birt í tímaritinu Biological Conservation.

Niðurstaðan er að allt að 40% skordýra gætu orðið útdauð á næstu áratugum. Ein af hverjum þremur skordýrategundum er talin í útrýmingarhættu.

Slíkur aldauði hefði gríðarlegar afleiðingar fyrir vistkerfi jarðar. Skordýr eru fæði fugla, leðurblakna og smærri spendýra, fræva 75% nytjaplantna, endurnýja jarðveg og halda ýmsum meindýrum í skefjum. Fleiri dýrategundir hærra í fæðukeðjunni gætu þannig horfið með skordýrunum.

Ein aukaverkun dauða skordýrategundanna gæti verið að algeng meindýr sem herja á bústaði manna eins og kakkalakkar og húsflugur sem fjölga sér hratt gætu dafnað í hlýrra loftslagi á meðan náttúrulegir óvinir þeirra sem fjölga sér hægar hverfa á braut.

„Það er mjög sennilegt að við endum með plágu fárra meindýra en við missum öll þessi yndislegu sem við viljum eins og bjöllur og randaflugur og fiðrildin og saurbjöllur sem standa sig frábærlega í að farga dýraúrgangi,“ segir Dave Goulson, prófessor við Sussex-háskóla.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×