Körfubolti

Stólunum verður ekki refsað fyrir kynþáttaníðið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ.
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ. vísir/eyþór
Körfuknattleiksdeild Tindastóls verður ekki refsað af KKÍ vegna áhorfandans sem var með kynþáttaníð í leik Tindastóls og KR í Síkinu á dögunum.

Einn áhorfandi kallaði á þjálfara KR í leiknum að taka Kristófer Acox, leikmann liðsins, af velli og setja hann inn í apabúrið.

Stólarnir hafa reynt að hafa upp á viðkomandi einstaklingi án árangurs og áköll um að viðkomandi gefi sig fram og biðjist afsökunar hafa ekki borið árangur.

„Stólarnir vilja allt gera til að finna þennan einstakling. Við munum ekki refsa fyrir þetta einstaka atvik enda einangrað mál,“ segir Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ.

„Við vorum með vinnufund með félögunum daginn eftir þar sem þetta mál var rætt opinskátt. Tindastóll brást vel við öllu í þessu máli og allir eru sammála um að það sé ósanngjarnt að gera eitthvað gagnvart þeim. Við erum samt að skoða þessi mál meira innan okkar raða. Sérstaklega er varðar framtíðina og hvort það sé eitthvað sem við þurfum að skoða. Þetta er sem betur fer einangrað atvik sem kom flatt upp á alla.“

Þó svo KKÍ muni ekki beita refsivendinum í þessu tiltekna atviki þá verður ekki svo ef slíkt mál kemur upp aftur.

„Við fylgjumst vel með og munum grípa til aðgerða ef svona atvik kemur aftur upp.“


Tengdar fréttir

Körfuboltakvöld: Dæmum ekki Tindastól á einu skemmdu epli

Sérfræðingar Domino's Körfuboltakvölds á Stöð 2 Sport ræddu atvikið sem kom upp í Síkinu á Sauðárkróki á fimmtudag þegar stuðningsmaður Tindastóls beitti Kristófer Acox, leikmann KR, kynþáttafordómum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×