Í grunninn eru tvær greinar í frumvarpinu sem strjúka læknum andhæris. Annars vegar 52. grein sem tiltekur að læknir eða hjúkrunarfræðingur annist læknisfræðilegt mat á ökumanni. „Læknafélag Íslands telur að klínískt mat á ökumanni í kringumstæðum sem þessum sé fyrst og fremst á færi lækna, ekki annarra heilbrigðisstarfsmanna,“ segir í álitinu.
Það sem slær lækna þó mest er að þeim er gert skylt að láta vita ef einstaklingar eigi við einhverja erfiðleika að stríða sem geta aftrað þeim frá að stjórna ökutæki. „Komi fram upplýsingar við meðferð sjúklings á sjúkrastofnun eða hjá lækni um verulega skerta hæfni viðkomandi til aksturs, meðal annars vegna neyslu ávísaðra lyfja sem skerða aksturshæfni, skal gera trúnaðarlækni Samgöngustofu viðvart án tafar. Stendur þagnarskylda læknis því ekki í vegi,“ segir í nýju frumvarpi til laganna.

„Þó lagaákvæði leyfi vissulega að með lögum sé þagnar- og trúnaðarskyldu lækna vikið til hliðar þá hefur fyrst og fremst verið litið til þess að það eigi við þegar vernda þarf hagsmuni barna, samanber tilkynningarskyldu samkvæmt barnaverndarlögum,“ segja læknar í áliti sínu. „LÍ fær ekki séð að slík hætta stafi af verulega skertri hæfni einstaklinga til aksturs að það réttlæti að læknir eigi að tilkynna um það til trúnaðarlæknis Samgöngustofu. Frávik frá þagnarskyldu í þessum tilvikum getur haft þau áhrif að sjúklingur sem hefur áhyggjur af aksturshæfni sinni leiti ekki til læknis af ótta við að læknirinn tilkynni um veikindi hans.“
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hafði ekki kynnt sér umsögn læknafélagsins og vildi því ekki veita viðtal vegna málsins.