Valur verður á meðal liða sem spilar um Coca-Cola bikarinn í handbolta í Laugardalshöll í næsta mánuði eftir að hafa unnið Selfoss á Selfossi í kvöld, 31-24.
Valsmenn tóku forystuna strax frá upphafi leiksins en staðan eftir stundarfjórðung var 5-5. Gestirnir voru þó ávallt skrefi á undan og náðu góðum kafla fyrir lok fyrri hálfleiks. Þeir leiddu í hálfleik, 13-9.
Áfram héldu Valsmenn forystunni í síðari hálfleik. Þegar heimamenn voru að nálgast stigu gestirnir af Hlíðarenda aftur á bensíngjöfina og unnu að endingu með sjö mörkum, 31-24.
Valur er því komið í undanúrslitin, úrslitahelgina í Laugardalshöllinni sem fer fram í mars, en það ræðst svo á morgun hvaða þrjú lið fylgja Val í undanúrslitin.
Anton Rúnarsson var markahæstur hjá Val með átta mörk en Magnús Óli Magnússon var næstur með sjö mörk. Daníel Freyr Andrésson varði vel í markinu.
Haukur Þrastarson skoraði sjö mörk í liði heimamanna og hornamennirnir Hergeir Grímsson og Guðjón Baldur Ómarsson komu næstir með fjögur mörk.
Valur í undanúrslit eftir sjö marka sigur á Selfossi
Anton Ingi Leifsson skrifar
