Körfubolti

Kristófer um rasismann: Erfiðara að gleyma þessu en öðru

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kristófer Acox, leikmaður KR í Dominos-deild karla, varð fyrir kynþáttafordómum í leik liðsins gegn Tindastól í Síkinu í gærkvöldi.

Kristófer greindi frá þessu á Twitter-síðu sinni skömmu eftir leik og hefur málið, eðlilega, vakið mikil viðbrögð í körfuboltasamfélaginu.

„Þetta kemur af svölunum fyrir ofan bekkinn okkar. Ég sá ekkert hver þetta var en maður heyrir þetta,“ sagði Kristófer í samtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Maður reynir að hlusta ekki á hvað áhorfendurnir í hinum liðunum eru að segja en þegar maður heyrir eitthvað persónulegt tekur maður því nærri sér,“ en hvað sagði viðkomandi?

„Hann segir við Inga að taka mig útaf og setja mig í apabúrið eða eitthvað svona rugl.“

Kristófer segir að þetta sé í fyrsta skipti sem þetta gerist fyrir hann, hvort sem það er á Íslandi eða annars staðar í heiminum.

„Ég hef aldrei lent í svona veseni sem betur fer og ég hef oft verið spurður að því hvort að þetta væri eitthvað sem ég hafði sloppið við. Ég hef alltaf getað svarað því játandi svo það er mjög leiðinlegt að heyra þetta núna og hvað þá 2019.“

„Það kom ekki fram í því sem ég setti á netið en formaður Tindastóls kom til mín strax eftir leik og baðst afsökunar fyrir hönd félagsins,“ sagði Kristófer og bætti við að lokum:

„Það er erfiðara að gleyma þessu en öðru en þeir brugðust vel við og komu beint til mín. Ég hef ekkert út á þá að setja,“ sagði Kristófer um viðbrögð Stólanna.

Innslagið í heild sinni má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×