Innlent

Segir íbúa miðbæjarins ósátta við tímabundið áfengisleyfi

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Kolbrún segir íbúa lanþreytta
Kolbrún segir íbúa lanþreytta
Sjö staðir í Reykjavík hafa fengið tímabundið áfengisleyfi í nótt þar sem einn stærsti sjónvarpsviðburður Bandaríkjanna, Superbowl eða Ofurskálin fer fram. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur gagnrýnt ákvörðun borgarinnar þar sem hún segir íbúa mjög ósátta.

Í nótt fer fram einn stærsti sjónvarpsviðburður Bandaríkjanna, Superbowl eða Ofurskálin eins og hann er kallaður hérlendis. Um er að ræða amerískan fótboltaleik sem sýndur er í nótt. Vegna viðburðarins hafa sjö staðir í Reykjavík fengið framlengdan opnunartíma ásamt tímabundnu áfengisleyfi.

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks Fólksins gagnrýndi ákvörðunina en hún hefur fengið fjölda kvartana frá íbúum miðbæjarins.

„Þarna er hópur fólks í miðbænum sem er orðinn langþreyttur á versnandi ástandi þegar kemur að endalausum skemmtana- og vínveitingaleyfum í miðbænum sem halda heilu hverfunum í gíslingu með yfirgengilegum hávaða og tillitsleysi. Hvað varðar næturró og friðhelgi einkalífsins er þetta komið langt yfir þau mörk,“ sagði Kolbrún Baldursdóttir.

Að hennar mati er reglugerð um hávaða hunsuð.

„Reglugerðin miðar að því að allt svona hætti klukkan 23 en nú er hávaðinn langt fram eftir nóttu. Þau segja sjálf að þeim sé haldið í gíslingu í miðborginni. Mér finnst kominn tími til að stjórnendur borgarinnar hugsi þetta til enda,“ sagði Kolbrún.

Leikurinn hefst klukkan 23.30 í kvöld og verður hann í beinni útsendingu á Stöð2 Sport, en dagskrá hefst klukkan 22.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×