Körfubolti

Ólafur: Ætluðum bara að vinna þetta saman

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ólafur Ólafsson skoraði 17 stig í kvöld.
Ólafur Ólafsson skoraði 17 stig í kvöld. Vísir/Bára
„Ég hafði áhyggjur af því að konan mín færi af stað uppi í stúku, maður fann spennuna í andrúmsloftinu. Það var yndislegt að spila svona, eins og við vorum að gera þetta fyrir hvorn annan. Við erum bestir þannig og þú sást hvað gerðist,“ sagði Ólafur Ólafsson í viðtali strax eftir sigurleikinn gegn Tindastóli í kvöld.

„Þú sást bara hvað gerðist. Þeir skoruðu 96 stig en okkur var eiginlega slétt sama hvað þeir skoruðu mikið, við ætluðum bara að vinna og gera það saman og okkur tókst það.“

Grindavík hafði tapað fjórum leikjum í röð fyrir leikinn í kvöld en nú sást barátta og kraftur sem vantar hefur undanfarið.

„Ég fann það á æfingu í gær þegar við vorum að æfa hér eftir kvennaleikinn sem var ekkert mjög skemmtilegt, að æfa hér klukkan 9 á laugardagskvöldi. Þó að við værum ekki að nenna þessum tíma var einhver neisti sem ég fann fyrir. Það var geggjað að spila með strákunum í dag og maður fékk einhvern 2016 fíling aftur. Vonandi getum við haldið áfram að byggja ofan á það,“ bætti Ólafur við sem var með skrámur í andlitinu eftir baráttuna í kvöld.

„Ég fékk einhvern putta í augað en ég er vanur því. Þetta er ekkert nýtt.“

Grindvíkingar létu Tiegbe Bamba fara eftir leikinn gegn Val á miðvikudag og náðu ekki að bæta við öðrum manni í hans stað.

„Þetta er frábær drengur og allt það. Mér fannst sóknin stoppa pínulítið þegar hann fékk boltann, með fullri virðingu fyrir honum. Hann er frábær íþróttamaður en það stoppaði allt og við vorum að horfa og bíða eftir því að hann myndi gera eitthvað. Ég vona að hann fái eitthvað frábært starf, hann er góður en það vantaði eitthvað sem var ekki að virka hér.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×