Erlent

Taldir hafa hellt klór yfir leikara í Empire

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Jussie Smollett fer með hlutverk Jamal Lyon í Empire.
Jussie Smollett fer með hlutverk Jamal Lyon í Empire. Getty/Theo Wargo

Ráðist var á einn leikara bandarísku sjónvarpsþáttaraðarinnar Empire í gærmorgun. Lögreglan í Chicago hefur árásina til rannsóknar en talið er kynþátta- og kynhneigðarfordómar hafi vakað fyrir árásarmönnunum.



Leikarinn, Jussie Smollett, þurfti á læknisaðstoð að halda eftir að tveir menn réðust á hann og helltu yfir hann einhvers konar vökva, sem ætla má að hafi átt að valda Smollett enn meiri skaða. Ekki er búið að greina frá því um hvaða efni mennirnir helltu yfir leikarann en fjölmiðlar vestanhafs telja að um klór hafi getað verið að ræða.



Árásarmennirnir eru jafnframt sagðir hafa bundið reipi um háls leikarans áður en þeir yfirgáfu vettvanginn. Þrátt fyrir það hefur Smollett nú verið útskrifaður af sjúkrahúsi og er hann talinn vera við góða heilsu.



Lögreglan segist rannsaka árásina sem hatursglæp en mennirnir tveir eru taldir hafa hreytt fordómafullum fúkyrðum í Smollet, sem er dökkur á hörund og samkynhneigður. Lögreglan í Chicago hefur biðlað til þeirra sem kunna að hafa einhverja vitneskju um árásina að gefa sig fram og aðstoða við rannsókn málsins.



Smollett leikur hinn samkynhneigða Jamal Lyon í Empire. Þættirnir hverfast um tónlist og átök innan fjölskyldu sem rekur útgáfufyrirtæki. Áður hafði Smollet leikið í kvikmyndum á borð við The Mighty Ducks og Alien: Covenant.



Uppfært 21. febrúar

Smollett er talinn hafa sviðsett árásina.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×