Innlent

Segir Steingrím nýta stöðu sína til að setja upp pólitísk réttarhöld í Klaustursmálinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er formaður Miðflokksins. Vísir/Vilhelm
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, telur að málsmeðferð Alþingis á Klaustursmálinu svokallaða séu pólitísk réttarhöld í boði Steingríms J. Sigfússonar, forseta alþingis. Hann segir að Steingrímur telji sig eiga harma að hefna og sé nú að nýta stöðu sína sem forseti í þeim tilgangi. Hann segir þingmenninna sex í Klaustursmálinu hafa liðið sálarkvalir og mátt þola grimmilega refsingu vegna málsins.

Þetta kemur fram í grein sem Sigmundur skrifar og birtist í Morgunblaðinu í dag. Sigmundur Davíð var sem kunnugt er einn þeirrra sex alþingismanna sem sátu á sumbli á barnum Klaustri á síðasta ári þar sem þeir létu ýmis niðrandi ummæli falla um samþingmenn sína og aðra nafntogaða einstaklinga.

Þingmennirnir sem voru á Klaustur bar þann 20. nóvember síðastliðinn. Ólafur Ísleifsson, Karl Gauti Hjaltason, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Anna Kolbrún Árnadóttir.

Hafi mátt þola „grimmi­legri refs­ingu en nokk­ur dóm­stóll myndi telja viðeig­andi“

Fram hefur komið að siðanefnd Alþings muni taka mál þeirra þingmanna til meðferðar og virðist Sigmundur Davíð ekki sáttur við það.

„For­seti Alþing­is reyn­ir nú að efna til póli­tískra rétt­ar­halda í annað sinn. Í fyrra skiptið studd­ist hann við gild­andi lög,“ skrifar Sigmundur Davíð og vísar þar til Alþingi samþykkti að kalla saman Landsdóm til þess að rétta yfir Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra árið 2010.

Segir Sigmundur Davíð að Klaustursmálið, eða hlerunarmálið líkt og hann kýs að kalla það, eigi ekkert erindi við siðanefndina.

„Í regl­un­um sem starf henn­ar bygg­ist á kem­ur enda skýrt fram að gild­is­svið þeirra nái ein­ung­is til þess sem þing­menn gera sem hluta af op­in­ber­um skyld­um sín­um. Eng­inn skyn­sam­ur maður gæti haldi því fram að einka­sam­tal yfir öldrykkju væri hluti af op­in­ber­um skyld­um þing­manna,“ skrifar Sigmundur Davíð.

Þá segir hann að niðurstaða siðanefndarinnar muni ekkert gildi hafa, auk þess sem að refsingu þeirra sem tóku þátt í samtalinu á Klaustri hafi þegar verið útdeilt.

„Hver gæti niðurstaða siðanefnd­ar­inn­ar orðið ef hún ákvæði að líta fram hjá hlut­verki sínu? E.t.v. sú að það hefði verið ósiðlegt að nota dóna­leg orð í einka­sam­tali. En það vita all­ir fyr­ir. Ekki hvað síst þeir sem það gerðu, eins og þeir hafa viður­kennt af­drátt­ar­laust og beðist fyr­ir­gefn­ing­ar á af ein­lægni. Fyr­ir at­vikið hafa þeir enda liðið sál­ar­kval­ir og þegar þolað grimmi­legri refs­ingu en nokk­ur dóm­stóll myndi telja viðeig­andi,“ skrifar Sigmundur Davíð.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.

Forseti Alþingis að „svala hefndarþorsta sínum“ að mati Sigmundar Davíðs

Í greininni fer Sigmundur Davíð hörðum orðum um Steingrím og staðhæfir hann að margir hafa haft efasemdir um að Steingrímur gæti orðið „heppilegur forseti“.

„Nú kýs hann að renna stoðum und­ir þær efa­semd­ir með af­ger­andi og sögu­leg­um hætti. Viðhorf Stein­gríms til mín er vel þekkt. Hann tel­ur sig eiga harma að hefna og leit­ast nú við að nýta stöðu sína í þeim til­gangi. Þó blas­ir við að ekk­ert af því sem ég sagði í einka­sam­tali sem tekið var upp með ólög­mæt­um hætti jafn­ast á við fjöl­margt sem þing­for­set­inn sjálf­ur hef­ur sagt og gert op­in­ber­lega að yf­ir­lögðu ráði,“ skrifar Sigmundur Davíð.

Þá segir Sigmundur Davíð að mannréttindi hans og hinna fimm sem sátu með honum að Klaustri umrætt kvöld hafi verið brotin, ekki ´se þó áhugi fyrir því hjá forseta Alþingis að láta rannsaka slíkt. Hann sé með aðgerðunum sínum í málinu að „svala hefndarþorsta sínum,“ auk þess sem að ef einkasamtal nokkurra þingmanna eigi erindi til siðanefndar þýði það að mati Sigmundar Davíðs að fjölmörg mál eigi heima á borði nefndarinnar.

„Það mætti til dæm­is nefna fjöl­mörg dæmi um hluti sem aðrir þing­menn, þar með talið Stein­grím­ur J. Sig­fús­son, hafa sagt um mig op­in­ber­lega sem eiga mun frek­ar er­indi til siðanefnd­ar en nokkuð sem ég sagði í hinum ólög­mætu upp­tök­um. Eigi svo póli­tík að ráða för frem­ur en gild­is­svið siðaregln­anna verður mála­fjöld­inn enda­laus. Í því sam­bandi er rétt að minn­ast þess að hver sem er get­ur lagt til að mál gangi til siðanefnd­ar með því að senda er­indi til for­sæt­is­nefnd­ar þings­ins.“

 

 

 


Tengdar fréttir

Formenn skiptust á skotum um Klaustursmálið

Kryddsíldin 2018 hófst á því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagðist hafa átt fjölda sambærilegra funda og þann sem tekinn var upp á Klaustur Bar í síðasta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×