Læknadagar hófust í Hörpu í dag og þar er meðal annars fjallað um nýja og viðmikla könnun á því hvernig læknum líður í vinnunni.
Ríflega helmingur allra lækna á Íslandi tók þátt í könnuninni sem var unnin fyrir Læknafélag Íslands. Ef litið er til þeirra sem vinna mest þá vinnur fjórðungur lækna 61-80 klukkustundir á viku. 4% lækna eru í vinnunni lengur en 80 klukkustundir á viku sem samsvarar tvöfaldri hefðbundinni 40 stunda vinnuviku.

Á því 12 mánaða tímabili sem spurt var um hefur um helmingur lækna hugleitt að láta af störfum. Þá leiðir könnunin í ljós að meira en 60% lækna telur óheppilegt að staðsetja Landspítala við Hringbraut og vill nýtt mat á staðsetningu vegna byggingar nýs spítala.
Þegar læknar eru spurðir um kynferðislega áreitni á vinnustað segjast um 7% kvenlækna hafa orðið fyrir slíku síðustu 3 mánuði en aðeins 1% karlkynslækna.
Þegar spurt er um alla starfsævina segir tæplega helmingur kvenna í læknastétt að þær hafi orðið fyrir áreitni en um 13% karla.

„Það eru margir þættir en það sem þessi könnun segir það er mönnunin, það er skortur á starfsaðstöðu, það er skortur á skilgreindu vinnusviði og að læknar ráði kannski fulllitlu um sitt nánasta starfsumhverfi,“ segir Ólafur Þór.