Erlent

Krefjast þess að Bandaríkin láti af framsalskröfu

Samúel Karl Ólason skrifar
Meng Wanzhou, aðstoðarfjármálastjóri og dóttir stofnanda kínverska tæknirisans Huawei.
Meng Wanzhou, aðstoðarfjármálastjóri og dóttir stofnanda kínverska tæknirisans Huawei. AP/Darryl Dyck
Yfirvöld í Kína krefjast þess að Bandaríkin láti af framsalskröfu gegn Meng Wanzhou, aðstoðarfjármálastjóra kínverska tæknirisans Huawei, sem handtekin var í Kanada fyrir áramót. Hún var handtekin að beiðni Bandaríkjanna þann 1. desember og berst hún nú gegn því að vera framseld til Bandaríkjanna þar sem talið er að hún sé grunuð um brot á viðskiptaþvingunum gegn Íran og jafnvel fjársvik.

Talskona Utanríkisráðuneytis Kína segir framsalssamning Bandaríkjanna og Kanada brjóta á „öryggi, réttindum og hagsmunum“ kínverskra ríkisborgara. Réttarhöld standa nú yfir í Kanada um hvort framselja megi Meng.

Fregnir hafa borist af því að Bandaríkin ætli að sækja um framsal Meng með formlegum hætti en eftir að hún var handtekin hafa yfirvöld í Kína handtekið minnst tvo Kanadamenn í Kína. Þeir Michael Kovrig og Michael Spavor voru handteknir 10. desember.

Meng er nú í stofufangelsi í einu af húsum sínum í Vancouver á meðan Kovrig og Spavor sitja í fangelsi í Kína og hafa enn ekki fengið aðgang að lögfræðingum, samkvæmt AP fréttaveitunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×