Innlent

Lögreglan með þjófnað og ólæti flugfarþega á sinni könnu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lögreglan á Suðurnesjum fer með þau mál sem upp koma í Leifsstöð.
Lögreglan á Suðurnesjum fer með þau mál sem upp koma í Leifsstöð. Vísir/GVA
Karlmaður af erlendu bergi brotinn var í gær gripinn með snjallúr og rakspíra sem hann var grunaður um að hafa tekið ófrjálsri hendi úr fríhöfn Leifsstöðvar. Verðmæti varningsins nam um 54 þúsund krónum. Þetta kemur fram í tilkynningu sem fréttastofu barst frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Maðurinn þrætti í fyrstu fyrir að hafa stolið mununum og hélt því fram að þeir hefðu verið keyptir annars staðar frá. Hann sá þó að sér, játaði þjófnaðinn og „lofaði bót og betrun“, eins og segir í tilkynningu lögreglunnar.

Þá þurftu lögreglumenn úr flugstöðvardeild lögreglunnar að hafa afskipti af flugfarþega sem sýndi af sér dónalega hegðun. Sá var ölvaður og gerði meðal annars tilraun til þess að stela úr vagni sem flugfreyjur seldu varning úr. Var hann færður á varðstofu þar sem lögregla tók hann tali.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×